Eins og hendi væri veifað

Nýjasta kynslóð BMW 3 er hlaðin tækninýjungum. Meðal annars er …
Nýjasta kynslóð BMW 3 er hlaðin tækninýjungum. Meðal annars er hægt að sleppa stýrinu og láta bílinn sjálfan um að stýra sér, og nota handabendingar til að hækka í útvarpinu. mbl.is/​Hari

Fjórtán milljónir eintaka af BMW 3 hafa selst í heiminum frá því að bíllinn kom fyrst á markaðinn árið 1975, sem gerir hann að einum söluhæsta bíl í heimi frá upphafi. Ekki er þó útlit fyrir að mikið bætist við þessa tölu hér á landi nú í vetur, því samkvæmt upplýsingum sem fengust hjá BL, umboðsaðila BMW, eru aðeins sárafáir bílar af sjöundu kynslóð, þessari allra nýjustu, fluttir til landsins.

Ástæðan er líklega að mestu sú að Íslendingar hafa að töluverðu leyti snúið baki við stallbökum  – millistórum fólksbílum með skotti – sem í gegnum áratugina hafa reyndar verið mjög vinsælir hér á landi. Í dag virðist sem flestir velji fremur jepplinga, enda henta þeir bæði barnafólki, sem og eldra fólki sem á erfitt með að setjast í og standa upp úr lágum bílum.

En ég ákvað láta þessar pælingar ekki skemma fyrir mér þann lúxus að fá að hafa BMW 3 Series Sedan í nokkra daga og aka honum um borg og bý.

Flottur framendi

BMW 3 er auðþekkjanlegur útlits. Framendinn er flottur með áberandi krómi og plastristum, ásamt laglegum leysiljósum. Að aftan eru tvö vígaleg púströr sem enn frekar ramma inn sportútlit bílsins. Hákarlsugginn á toppi bílsins er á sínum stað og er eitt af einkennismerkjum hans.

Þessi bíll hefur aðeins breyst frá sjöttu kynslóð. Hann er t.d. 76 millimetrum lengri og 60 millimetrum breiðari, sem hvort tveggja hjálpar til við að gefa honum veglegri holningu. Þá er þyngdarpunkturinn 10 millimetrum lægri, sem aftur hjálpar enn til við að gera hann stöðugan í beygjum.

Áður en við ræðum innra byrði bílsins er rétt að kíkja í skottið. Þar var gaman að sjá ágætar hirslur bæði vinstra og hægra megin fremst í skottinu. Sjálfur er ég nefnilega mjög hrifinn af því að geta komið dóti kirfilega fyrir þannig að það hendist ekki út og suður á meðan á akstri stendur en í heildina litið er skottið af viðunandi stærð, a.m.k. bjóst ég ekki við meira rými.

Eftir að ég lokaði skottinu smeygði ég mér inn í aftursætið og undi mér ágætlega þar um stund. Pláss fyrir fætur prýðilegt og sömuleiðis fær meðalmaðurinn gott höfuðpláss.

En þá er komið að aðalmálinu, ökumannssætinu og þeim stoðtækjum sem þar er að finna, en þau eru ekki af verri endanum í þessari nýjustu útgáfu af BMW 3, sem er hlaðinn tækninýjungum. Margt af því hefur maður reyndar séð í öðrum bílum, en þó ekki allt.

Það sem var glænýtt fyrir þeim sem hér hamrar á lyklaborðið var stjórnun útvarpsstöðvanna í bílnum. Hægt er að stjórna þeim með hefðbundnum hætti í stýrinu, eða af stjórnborðinu fyrir miðju bílsins, eða hjá gírstönginni, en þessi nýja virkni sem ég lýsi hér á eftir fannst mér skemmtileg. Til að hækka í útvarpinu getur maður veifað hendinni með bendandi vísifingri í hringi til hægri, en ef maður vill lækka snýr maður fingrinum í hringi til vinstri. Til að skipta um stöð, annaðhvort að fara upp stöðvalistann eða niður hann, setur maður höndina eins og maður sé að húkka far úti á þjóðvegi og hreyfir svo þumalinn til hægri til að fara niður listann en til vinstri ef maður vill fara upp hann.

Stundum þarf ekki mikið til að kæta mann.

Veglýsing í framrúðunni

Ég hef, í þó nokkrum af þeim bílum sem ég hef reynsluekið síðustu misserin, fengið að aka með svokallaðan framrúðuskjá (e. head-up display), þar sem upplýsingar koma í framrúðuna beint fyrir framan ökumann. En hér er búið að bæta um betur og þegar kveikt er á leiðsögukerfinu kemur það við hlið hraðamælisins í framrúðuna.

Annað tæknilegt atriði sem ég hafði ekki prófað áður í bíl var sá eiginleiki að geta sleppt stýrinu og leyft bílnum að nota vegmerkingarnar til að stýra sér sjálfur. Ég prófaði þetta nokkrum sinnum, en þurfti reyndar alltaf fljótlega að grípa í stýrið aftur, og kenni þá um gloppóttum og óskýrum vegmerkingum hér á Íslandi. Þetta á BMW kannski líka eftir að þróa betur. Þegar maður sleppir stýrinu, og er kominn með góða bók í hendur eða er að snyrta á sér augabrúnirnar í upplýstum speglinum í sólskyggninu, er sem sagt ágætt að vera samtímis með annað augað á mælaborðinu, því um leið og bíllinn heldur að hann sé að missa stjórnina á stýrinu sýnir hann mynd af gulu stýri, og þegar hann er alveg búinn að missa stjórnina koma rauð skilaboð, og þá borgar sig að sleppa bókinni og grípa aftur í stýrið. Að líkindum á þetta eftir að koma að góðum notum á vel máluðum hraðrautum í Evrópu.

Bíllinn er einnig með akstursminni, þannig að ef maður keyrir út úr stæði, til dæmis inni í bílastæðahúsi, þá getur maður sett í bakkgírinn, stillt á Reversing Assistant og látið bílinn bakka sömu leið til baka án þess að snerta stýrið eða bensíngjöfina. Það er erfitt að venjast þessu í fyrstu, og minnir á þegar maður spólar kvikmynd aftur á bak. En eftir að bíllinn nær að leysa verkefnið í fyrsta skiptið byggist upp traust á milli bíls og ökumanns. Þetta er annað atriði sem á vafalaust eftir að þróast hratt á næstu misserum hjá BMW.

Allt afþreyingar- og upplýsingakerfi bílsins er harla gott, og snertiskjárinn virkaði vel, sem og takkarnir hjá gírstönginni. Hólfið á milli sætanna gefur góðan stuðning fyrir hægri höndina og ofan í því er ljós til hægðarauka þegar verið er að gramsa eftir smádrasli sem maður hefur hent þar ofan í.

Hughrifsljósin gleðja

Breytileg hughrifsljós eru hluti af innréttingu bílsins, sem lífga hann við, og leðursætin eru með bláum BMW-lituðum saumum. Stýrið var sömuleiðis leðurklætt og sportlegt.

Ég prófaði að raddstýra miðstöðinni og útvarpinu og gekk það sæmilega, svo lengi sem ég passaði mig að vera þokkalega skýrmæltur á ensku. Þessi virkni hjálpar til og gerir aksturinn öruggari þegar maður kemst upp á lagið með að nota þetta.

Veghljóð var lítið og fjöðrun til fyrirmyndar á grófum vegi, og almennt er þetta bíll sem er mjög þægilegur í akstri og hlýðir vel öllum aðgerðum.

Að sjálfsögðu er boðið upp á Sport-, Comfort- og Eco-stillingar í átta þrepa gírskiptingunni, en áþreifanlegasti munurinn kemur í sportstillingunnni þegar bíllinn skiptir sér upp á leifturhraða þegar honum er gefið vel inn.

BMW 3 er stöðutákn. Hann kostar álíka mikið og sæmilegur jepplingur og enn meira þegar allur aukabúnaður er kominn í hann, en þá brunar hann upp fyrir tíu milljónirnar. Ungan dreymdi mig um að eignast BMW 3 og sá dramur lifir góðu lífi eftir þessi ágætu kynni.

BMW 320 Xdrive G20

» 2,0 lítra díselvél

» 190 hestöfl / 400 Nm8 þrepa sjálfskipting

» 4,2-4,5 l/100 km í

blönduðum akstri

» 0-100 km/klst. á 6,8 sek.

Hámarkshr. 221 km/klst

» Drif á öllum hjólum

» 19" álfelgur

» Eigin þyngd: 1.643 kg.

» Farangursrými: 470 lítrar

» Sótspor: 120 g/km

» Umboð: BL.

» Verð frá: 6.490.000 kr.

Hlutföllin í framsvipnum eru eins og best verður á kosið.
Hlutföllin í framsvipnum eru eins og best verður á kosið. mbl.is/​Hari
Það fer bílnum óneitanlega vel að vera á 19 tommu …
Það fer bílnum óneitanlega vel að vera á 19 tommu felgum. mbl.is/​Hari
BMW 3
BMW 3 mbl.is/​Hari
BMW 3
BMW 3 mbl.is/​Hari
BMW 3
BMW 3 mbl.is/​Hari
Fullkomnasta tækni umlykur ökumann og auðveldar aksturinn til muna.
Fullkomnasta tækni umlykur ökumann og auðveldar aksturinn til muna. mbl.is/Hari
Það ætti að fara vel um aftursætisfarþega í leðurklæddum sætunum
Það ætti að fara vel um aftursætisfarþega í leðurklæddum sætunum mbl.is/​Hari
BMW 3
BMW 3 mbl.is/​Hari
BMW 3
BMW 3 mbl.is/​Hari
BMW 3
BMW 3 mbl.is/​Hari
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »