Hræðsla um kórónuveirusmit í skóla Georgs og Karlottu

Hræðsla um kórónuveirusmit í skóla Georgs og Karlottu.
Hræðsla um kórónuveirusmit í skóla Georgs og Karlottu. AFP

Fjöldi nemenda í skóla Georgs prins og Karlottu prinsessu hefur verið beðinn um að halda sig heima vegna hræðslu við útbreiðslu kórónuveirunnar.

Fjórir nemendur í skólanum voru sendir heim eftir að þeir komu úr fríi frá Norður-Ítalíu þar sem kórónuveiran hefur greinst á meðal fjölda fólks. 

Í það minnsta átta skólar í Bretlandi hafa fellt niður kennslu eftir því sem kórónuveiran hefur breiðst út um Evrópu. 

Einkaskóli konungsbarnanna, Thomas's School í Battersea, hefur gefið út þessi tilmæli til nemenda til að koma í veg fyrir hugsanleg smit. „Eins og allir skólar höfum við tekið útbreiðslu COVID-19 alvarlega,“ sagði talsmaður skólans. 

Nokkrir nemendur hafa verið prófaðir og munu dvelja heima hjá sér þar til kemur í ljós hvort um kórónuveirusmit er að ræða.

„Við höfum upplýst alla foreldra barna í skólanum og höfum haldið sambandi við skólasamfélagið til að tryggja að upplýsingar berist til allra. Við getum að sjálfsögðu ekki tjáð okkur um einstaka nemendur,“ sagði talsmaðurinn. Ekki er ljóst hvort Georg og Karlotta muni eyða næstu dögum heima. 

mbl.is