Les fyrir barnabarnið úr sóttkví

Hér má sjá Guðrúnu Öldu í litlum spjallglugga til hægri, …
Hér má sjá Guðrúnu Öldu í litlum spjallglugga til hægri, að lesa fyrir barnabarn sitt opnu úr barnabók sem varpað er á skjá. Ljósmynd/Aðsend

Leikskólakennarinn og amman Guðrún Alda Harðardóttir er eins og fjölmargir landsmenn í sóttkví þessa dagana og nær því ekki að hitta barnabörnin. Hún fann þó leið til þess að lesa með barnabörnunum í gegnum netið.

Guðrún Alda Harðardóttir, leikskólaráðgjafi og doktor í kennslufræðum, leitaði í kjölfar sóttkvíar vegna kórónuveirunnar leiða til að geta haft ofan af fyrir barnabarni sínu og mögulega lesið bók í gegnum einhvers konar fjarfundabúnað með aðstoð tækninnar. Guðrún fann sér forritið Zoom sem gerir henni kleift að deila rafbók með öðrum aðila sem staddur er annars staðar. Þannig getur amma lesið fyrir ömmubarnið af sínum skjá og deilt rafbókinni og lestrinum með einum eða fleiri viðmælendum. Mögulegt er með þessu að lesa fyrir nokkur börn í einu, þótt börnin sitji í ólíkum íbúðum, húsum eða löndum.

Í gærmorgun hringdi Guðrún Alda í bókaútgáfuna Sögur og ræddi þennan möguleika. Úr varð að útgáfan greip þessa frábæru hugmynd á lofti og setti á fót rafútgáfu nokkurra barnabóka á heimasíðu sinni sem lesendur geta nálgast án endurgjalds. Forritið sjálft er svo aðgengilegt á síðunni Zoom.us. Þannig geta lesendur séð á skjánum bæði bókaropnuna og lesandann sjálfan í senn. Eins alla þátttakendur spjallsins.

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið [email protected].

Stöndum saman