Opnar sig um þungunarrof í nýrri bók

Laura Prepon fór með hlutverk í þáttunum Orange is the …
Laura Prepon fór með hlutverk í þáttunum Orange is the new Black. AFP

Leikkonan Laura Prepon opnar sig um af hverju hún ákvað að láta rjúfa meðgöngu sína eftir 16 vikur í nýrri sjálfsævisögu, You & I As Mothers. Prepon þekkja eflaust einhverjir úr þáttunum Orange is the New Black sem sló í gegn á Netflix. 

Prepon varð ólétt árið 2018, aðeins einu ári eftir að hún og eiginmaður hennar Ben Foster buðu frumburð sinn Ellu velkomna í heiminn árið 2017. Þau voru spennt að tilkynna um óléttuna en héldu þó í sér fram að læknisskoðun á 16 viku. 

Í læknistímanum varð strax ljóst að eitthvað mikið var að fóstrinu. Læknirinn sagði henni að fóstrið væri ekki að þroskast rétt og eftir frekari rannsóknir kom í ljós að bein fóstursins væru ekki að vaxa og ekki heilinn heldur. 

„Okkur var sagt að ég gæti ekki gengið fulla meðgöngu og að líf mitt væri í hættu ef ég héldi meðgöngunni áfram. Ben hélt utan um mig þar sem ég grét. Við þurftum að rjúfa meðgönguna,“ segir Prepon. 

Prepon segir að þungunarrofið hafi vakið upp gamlar sjálfshaturshugsanir. Prepon glímdi við lotugræðgi frá 15 ára aldri og fram á þrítugsaldurinn. 

„Að komast á annan hluta meðgöngunnar og fá svo þessar skelfilegu fréttir. Mér leið eins og mér hefði mistekist. Mér leið eins og líkamanum mínum hefði mistekist að búa til annað barn. Hugsanirnar um hvað væri að líkamanum mínum komu aftur,“ segir Prepon.

Hún segir að eiginmaður hennar hafi verið hennar stoð og stytta í ferlinu. Þau vissu ekki hvort þau gætu eignast annað barn eftir fósturmissinn en tókust á við tilfinningarnar saman.

Prepon varð hinsvegar aftur ólétt á síðasta ári og í febrúar á þessu ári kom heilbrigður drengur í heiminn. „Þá áttaði ég mig á því hversu mikil blessun það er að eignast heilbrigt barn,“ segir Prepon. 

mbl.is