Ókeypis hugleiðslu-páskaratleikur fyrir börn

Heillastjarna býður upp á ókeypis hugleiðslunámskeið fyrir börn.
Heillastjarna býður upp á ókeypis hugleiðslunámskeið fyrir börn. Ljósmynd/Unsplash

Vefurinn Heillastjarna var opnaður á dögunum en á honum er að finna mikið magn af leiddum hugleiðslum og sjálfstyrkjandi efni fyrir börn. Stefanía Ólafsdóttir stofnandi Heillastjörnu og hugleiðslu- og grunnskólakennari segir að vefsíðunni sé ætlað að styrkja heimili og skóla og gera hugleiðslu að reglubundinni iðkun og fjölga þannig friðsælu augnablikunum í tilverunni. Vefurinn býður upp á ókeypis hugleiðslu-ratleik og fá þeir sem skrá sig til leiks hugleiðslu í tölvupósti á hverjum degi eða til 12. apríl. 

Af hverju hugleiðsluvefsíða fyrir börn?

„Ég hef kennt fullorðnu fólki hugleiðslu í fjölmörg ár og hef iðulega fengið fyrirspurnir um hugleiðsluefni fyrir börn. Áreitið í samfélaginu er mikið og ekkert alltaf auðvelt að vera barn eða unglingur í dag, enda sýna rannsóknir að kvíði meðal ungmenna virðist fara vaxandi. Mig langaði að bjóða upp á efni sem myndi styðja fjölskyldur við að hugleiða saman þannig að bæði börn og foreldrar myndu njóta,“ segir Stefanía.

Hvernig finnst þér hugleiðslan höfða til barnanna, hafa þau nægt úthald og einbeitingu?

„Mín reynsla er sú að flest börn elska að hugleiða eftir að þau eru komin aðeins upp á lag með það. Ég kenni til dæmis hugleiðslu í grunnskóla og þar eru hugleiðslutímarnir mjög eftirsóttir. Börnin njóta þess ekkert síður en við fullorðna fólkið að eiga endurnærandi stund með sjálfum sér. Efni Heillastjörnuvefsíðunnar skiptist upp í mismunandi flokka og ættu því flestir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Þarna eru t.d. örhugleiðslur sem eru 1-3 mínútur að lengd fyrir þau börn sem hafa lítið úthald. Einhvers staðar verður maður að byrja en síðan er hægt að auka lengdina smám saman. Svefnhugleiðslurnar eru líka vinsælar en þær eru lengri og leiða börnin áreynslulaust inn í draumalandið. Auk þess er þarna boðið upp á sjálfstyrkingarhugleiðslu, öndunaræfingar og ýmislegt fleira.“

Geturðu sagt okkur aðeins meira um hugleiðsluratleikinn?

„Þessi ratleikur er sá fyrsti sinnar tegundar á Íslandi og þótt víðar væri leitað. Hann virkar þannig að þeir sem taka þátt í honum fá ókeypis hugleiðslu í tölvupósti daglega frá 5.-12. apríl. Hugleiðslurnar leiða börnin áfram í skemmtilegum ratleik en einnig er blandað inn í þær öndunaræfingum og fleiru sem hjálpar börnunum að auka einbeitingu og innri ró. Það kostar ekkert að vera með og er hugmyndin á bak við leikinn að kynna hugleiðslu fyrir börnunum á aðgengilegan og skemmtilegan hátt,“ segir Stefanía. 

Áhugasamir geta skráð sig til leiks HÉR.

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið [email protected].

Stöndum saman