49 ára fjölskyldufaðir vildi gleðja börnin

Svavar Konráð Sigurðsson, eða Konni eins og hann er kallaður, er 49 ára fjölskyldufaðir og fyrirtækjaeigandi. Árið 2010 stofnaði hann Xprent Hönnun og merkingar en sama ár gaf hann út sína fyrstu barnabók. Á þessum sérstöku tímum langaði hann að gleðja börnin og gaf ú splunkunýja bók, Jói Kassi og horklessan og er hægt að nálgast hana frítt. 

„Varðandi nýjustu bókina „Jói Kassi og horklessan” þá voru allir að tala um að gefa eitthvað tilbaka og gera eitthvað fyrir fólkið í landinu. Ég hugsaði að mig langaði að gera eitthvað fyrir börnin og það besta sem mér datt í hug var að gera litabók sem er lítil saga í leiðinni. Þá datt mér í hug að skrifa nýja sögu um Jóa Kassa og veiruna sem er í gangi, en fyrst um sinn voru þetta leiðbeiningar, en eftir fund með teiknaranum mínum þá varð þessi horklessa til sem festist við Jóa Kassa. Tengingin við veiruna og Covid19 var komin. En frásögnin tengist öllu því sem við erum að ganga í gegnum þessa dagana en á gamansaman hátt. Á meðan Þórir teiknaði þá fór ég yfir textann og lét þýða bókina á ensku og vinkona mín í Kanada, hún Melanie Adams, aðstoðaði mig við þýðinguna. Þannig varð hugmyndin um að koma henni út fyrir landsteina og bjóða hana frítt allsstaðar, að veruleika. Svo loksins rétt fyrir páska var allt klárt, sagan, teikningarnar, þýðingin og heimasíðan og við byrjuðum að deila henni og senda á vel valda í einkaskilaboðum. Á met tíma fór bókin eins og eldur í sinu og hefur í dag farið út um allan heim. Ég vona bara að sem flest börn fái að njóta bókarinnar,“ segir Konni. 

Þegar Konni er spurður út í Jóa Kassa og félaga kemur í ljós að það er langt síðan að hugmyndin um þann ágæta félaga kviknaði. 

„Þegar strákurinn minn var ungbarn árið 2001 fékk ég hugmynd sem var til þess að ég skapaði Jóa Kassa. Hugmyndin týndist en svo nokkrum árum seinna, eða 2004 fann ég hana aftur og byrjaði að vinna hana að fullu og kláraði hugmyndina sem urðu að sex bókum á einu ári. Svo tók við þróun á frásögn og ég þurfti líka að finna teiknara. Ég reyndi það sjálfur en tók fljótlega eftir því að það var ekki einn af mínum hæfileikum. Það tók mig tvö ár að finna teiknara en árið 2007 var ég kynntur fyrir Thorir Karl Celin og boltinn byrjaði að rúlla og Jói Kassi varð til. Það tók okkur 3 ár að klára fyrstu bókina „Jói Kassi og vélarnar“ og eftir það var ekki aftur snúið. Í dag erum við búnir að gera 12 bækur saman og eitt súkkulaðidagatal sem er mjög vinsælt um jólin. Þegar ég kláraði að skrifa allar Jóa Kassa bækurnar, þá urðu til humyndir um „Lepp“ en hann er einmitt úr heimi Jóa Kassa. Leppur er sjóræningjakista sem dúkkar upp í einni bókinni um Jóa, en út frá þeim kynnum þá fékk ég hugmynd að nýrri seríu og stefnum við á að gera 6-8 bækur um lepp og ævintýrin hans. Við erum búnir að gefa út tvær bækur um Lepp,“ segir Konni. 

Hvað þarf til þess að ná til krakka?

„Ég held að maður þurfi svolítið að leita í barnið í sjálfum sér. Ég vil að börnin skemmti sér en einnig að það sé spennandi það sem þau eru að lesa og ég notaði mikið svona enda atriði sem fá börnin til að standa á öndinni í lok hverrar bókar, svona CLIFFHANGER ef ég sletti á ensku. En fyrstu sex bækurnar tengjast allar og mynda eitt risastórt ævintýri, en eru jafnframt stakar sögur útaf fyrir sig. Allan tímann hef ég verið að skoða markaðinn og fylgt honum soldið eftir, en mínar bækur eru aðeins öðruvísi en líka skemmtun fyrir fullorðna fólkið sem les fyrir börnin sín. Bækurnar eru fallega myndskreyttar og gefa dýpt í frásögnina. Það er allt í bókunum; sorg, spenna, söknuður en jafnframt gleði, von og hamingja,“ segir hann. 

Hvers vegna urðu krakkar markhópurinn?

„Með bækurnar um Jóa Kassa var ekkert annað í boði en að halda sig við börnin, en ég er með margar aðrar pælingar í gangi, hugmyndir að unglingabókum, spennusögur fyrir fullorðna og tvær harmleikasögur, en þær eru allar komnar mislangt, beinagrindur eða byrjaður á frásögn og samtölum. Mig langaði að byrja á barnabókunum og svo halda áfram seinna með hinar hugmyndirnar.“

Konni á konu og tvö börn, 20 ára gamlan son og 17 ára stjúpdóttur. Aðspurður að því hvernig fjölskyldan hafi farið í gegnum kórónuveiruna segist hann vera lánsamur. 

„Við erum búin að vera heppin, fyrirtækið mitt er enn í gangi þannig að við erum ekki eins einangruð og aðrar fjölskyldur, þannig að við höfum getað haldið okkur heima en jafnframt getað farið í vinnuna. Við erum dugleg að njóta samverunnar, spilum, hjólum og förum í göngutúra.“

Hvað finnst þér mikilvægt að gera til þess að missa ekki vitið?

„Mér finnst voða gott að hugleiða og slaka á. Við tölum mikið saman ég og konan mín, um ástandið og lausnir en einnig finnst okkur voða gott að hafa hvort annað nálægt. Á þessum tímum er mikilvægt að vinna vel í sambandinu og höfum við orðið nánari fyrir vikið. Ég veit ekki hvar ég væri í dag ef hún væri ekki mér við hlið.“

Hvers saknar þú mest að geta ekki gert í þessu ástandi?

„Að heimsækja vini og ættingja, ferðast, fara í sund og í að fara í ræktina.“

HÉR getur þú nálgast Jóa Kassa og félaga hans frítt. 

mbl.is