Fyrrverandi hjón saman í einangrun vegna barnanna

Eva Amurri einangraði sig með fyrrverandi eiginmanni sínum.
Eva Amurri einangraði sig með fyrrverandi eiginmanni sínum. skjáskot/Instagram

Leikkonan Eva Amurri segir að hún og fyrrverandi eiginmaður hennar Kyle Martino hafi farið ansi óhefbundna leið í veiruástandinu. Amurri er dóttir leikkonunnar Susan Sarandon og ítalska leikstjórans Franco Amurri. 

Fyrrverandi hjónin eru nú saman í einangrun með börnin sín þrjú og gengur sambúðin vel. „Þetta hefur verið mjög áhugavert. Hann sagði reyndar í beinni útsendingu á Instagram fyrir vinnuna að við höfum troðið einu ári af þerapíu í nokkrar vikur af einangrun, því höfum virkilega reynt að komast á sömu blaðsíðu. Við höfum svo oft lent í rifrildum og þurft að leysa úr þeim,“ sagði Amurri. 

Hún segir að þetta hafi verið besta niðurstaðan í þessu ástandi þar sem Martino býr ekki í sama ríki og Amurri og börnin. Það hafi því aðeins verið tvennt í stöðunni, að hann myndi einangra sig og ekki sjá börnin í langan tíma eða að þau myndu fara saman í einangrun. 

„Þetta var augljóslega betri kostur fyrir börnin og hann. Þetta hefur verið frábært, ótrúlegt en satt, en við höfum samt átt erfiðar stundir líka,“ sagði Amurri. Þau deila forræðinu yfir Marlowe 5 ára, Major 3 ára og Mateo 1 mánaða. Þau tilkynntu um skilnaðinn í nóvember 2019. 

mbl.is