Daði frumflytur nýtt lag á morgun

Daði Freyr hefur samið lag í samstarfi við 4. bekkinga …
Daði Freyr hefur samið lag í samstarfi við 4. bekkinga í grunnskólum Reykjavíkurborgar. mbl.is/Hanna

Tónlistarmaðurinn Daði Freyr Pétursson mun frumflytja lag Barnamenningarhátíðar á morgun. Lagið samdi Daði í samstarfi við börn í 4. bekk í grunnskólum borgarinnar. Texti lagsins er byggður á hugmyndum fjórðubekkinga um hvernig heimurinn væri ef þau fengju að ráða. 

Lagið nefnist Hvernig væri það? og kemur út á spotify- og youtubesíðu Barnamenningarhátíðar á morgun, þriðjudaginn 19. maí. Nemendur fjórða bekkjar fá fyrst að heyra lagið og horfa á myndbandið sem Daði er búinn að gera við það. 

Miðvikudaginn 20. maí klukkan 9:00 að morgni verða svo haldnir tónleikar á netinu með Daða Frey þar sem hann flytur nokkur af sínum vinsælustu lögum og auðvitað nýja lagið. Tónleikarnir voru upphaflega skipulagðir sem opnunarviðburður Barnamenningarhátíðar í Hörpu í ár sem ekkert varð af vegna Covid-19. Til þess að dreifa gleðinni sem víðast hefur því verið ákveðið að hafa tónleikana opna fyrir alla á facebooksíðu Barnamenningarhátíðar.

mbl.is