Blokkin á heimsenda hlaut verðlaun Guðrúnar Helgadóttur

Arndís Þórarinsdóttir og Hulda Sigrún Bjarnadóttir hlutu barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur.
Arndís Þórarinsdóttir og Hulda Sigrún Bjarnadóttir hlutu barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur. Ljósmynd/Aðsend

Arndís Þórarinsdóttir og Hulda Sigrún Bjarnadóttir hljóta Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur 2020 fyrir handrit sitt að bókinni Blokkin á heimsenda. Bókin kemur út í dag, þriðjudaginn 19. maí.

Reykjavíkurborg veitir nú Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í annað sinn. Þau eru veitt árlega fyrir óprentað handrit að barna- eða ungmennabók og er ætlað að hvetja til metnaðarfullra skrifa fyrir börn og ungmenni og halda á lofti merkjum eins okkar ástsælasta barnabókahöfundar. Verðlaunaféð er ein milljón króna.

Hátt á fimmta tug handrita bárust í samkeppnina í ár og var dómnefndin sammála um að handrit þeirra Arndísar Þórarinsdóttur og Huldu Sigrúnar Bjarndóttur, Blokkin á heimsenda, skyldi hljóta verðlaunin að þessu sinni. Dómnefndina skipuðu þau Geir Finnsson, sem var formaður, Halla Þórlaug Óskarsdóttir og Heiða Rúnarsdóttir. Á lokametrunum fengu þau tvo nemendur úr 6. bekk Háteigsskóla sér til liðsinnis og þakkar Reykjavíkurborg þeim fyrir þeirra mikilvæga framlag.

Ástandið í samfélaginu vegna Covid-19 setti nokkuð strik í reikninginn við verðlaunaafhendinguna sem var seinna í ár en ráð var fyrir gert. Borgarstjóri afhenti verðlaunin í Höfða og var brugðið á það ráð að kvikmynda athöfnina til að sem flestir mættu upplifa og njóta með höfundunum.

Reykjavík bókmenntaborg UNESCO hefur umsjón með Barnabókaverðlaunum Guðrúnar Helgadóttur. Þau verða næst veitt vorið 2021 og verður skilafrestur handrita auglýstur á vef Bókmenntaborgarinnar, bokmenntaborgin.is, og á vef Reykjavíkurborgar.

mbl.is