Flugfélag gefur gömul teppi í dýraathvörf

Flugmaður hjá Aer Lingus stakk upp á því að gefa …
Flugmaður hjá Aer Lingus stakk upp á því að gefa teppin til dýraathvarfa. PAUL MCERLANE

Írska flugfélagið Aer Lingus gaf á dögunum gömul teppi úr vélum sínum til nokkurra dýraathvarfa á Norður-Írlandi í stað þess að henda þeim í almennt sorp. 

Teppin, sem voru notuð í utanlandsflugi Aer Lingus, eru aðeins þvegin og notuð þrisvar sinnum áður en þeim er hent. Í kjölfar þess að einn flugmaður hjá félaginu ættleiddi hund úr athvarfi ákvað hann að semja við félagið um að gefa teppunum nýtt líf í dýraathvörfum. 

„Aer Lingus hefur ákveðið að gefa öll teppi sem annars átti að henda og senda þau í dýraathvörf þar sem nota má þau í bæli fyrir dýr eða í annað handa dýrunum,“ sagði talsmaður fyrir Lost and Found Pets North Down. 

Þetta verður framtíðarfyrirkomulag hjá flugfélaginu og því ekki aðeins um eina teppagjöf fyrir jólin að ræða. 

Átta samtök hafa nú þegar sótt um að fá teppi frá Aer Lingus og munu fyrstu teppin berast í þessari viku. Minni athvörf hafa verið sett í forgang þar sem sjálfboðaliðar sinna störfum sínum og fá ekki greitt í peningum fyrir að hjálpa dýrum í neyð. 

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. AFP
mbl.is