Ætti að reka flugþjóninn fyrir aðgerðaleysi

Wendi Williams er ekki ánægð með viðbrögð flugfélagsins.
Wendi Williams er ekki ánægð með viðbrögð flugfélagsins. AFP

Wendi Williams, konan sem hallaði sætinu í flugi á dögunum og mátti þola ítrekuð högg á sæti sitt í kjölfarið er ekki ánægð með viðbrögð flugfélagsins American Airlines. Að hennar mati ætti flugþjónninn um borð að vera rekinn fyrir aðgerðaleysi sitt. 

Williams deildi myndbandi af manninum sem lét höggin dynja á sæti hennar á samfélagsmiðlum. Myndbandið hefur vakið mikla athygli og skapað eldfima umræðu um hvort það megi halla sætinu í flugvél. 

Í viðtali segir hún að hún hafi ekki mætt miklum skilningi hjá flugþjóninum um borð. Hún segir hann hafa beðið hana um að eyða myndbandinu og hótað að láta reka hana frá borði ef hún gerði það ekki. 

Williams hefur haft samband við American Airlines og sent félaginu langt myndband af atvikinu. Hún hefur aðeins fengið svör um að starfsfólk félagsins hafi fengið þjálfun í að bregðast við atvikum sem þessu. Hún íhugar nú að fara í mál við flugfélagið.

mbl.is