Gaf 1,3 milljónir í þjórfé

Borgar þú þjórfé erlendis?
Borgar þú þjórfé erlendis? ljósmynd/Colourbox.dk

Íslendingar á ferðalögum reyna oft að komast upp með að sleppa að gefa þjórfé. Þeir sem gefa þjórfé gefa fæstir jafnmikið og rausnarlegur veitingahúsgestur í Texas gerði á dögunum. Vildi ónefndi gesturinn hjálpa veitingastaðnum að borga starfsfólki laun með því að gefa rúmlega milljón íslenskra króna í þjórfé að því er fram kemur á vef Independent. 

Veitingastaðir víða um heim berjast nú í bökkum, meðal annars vegna fækkunar ferðamanna í kjölfar kórónuveirunnar. Rausnarlegi gesturinn er reyndar ekki talinn vera hefðbundinn ferðamaður heldur fastakúnni.

„Borgið starfsfólkinu ykkar næstu vikurnar,“ skrifaði gesturinn á kvittunina og borgaði 9.400 bandaríkjadali eða rúmlega 1,3 milljónir íslenskra króna. Um 30 manns munu deila upphæðinni.

Er gesturinn sagður hafa komið inn á veitingastaðinn í sömu mund og verið var að segja fréttir af því að veitingastaðir og barir í Texas neyddust til þess að loka vegna kórónuveirunnar.

mbl.is