Leyfa buxur og flatbotna skó í fyrsta skipti

Flugfreyjur Japan Airlines þurfa ekki lengur að ganga í pilsum …
Flugfreyjur Japan Airlines þurfa ekki lengur að ganga í pilsum og háum hælum í vinnunni. YURIKO NAKAO

Japanska flugfélagið Japan Airlines hefur breytt reglum sínum um klæðnað kvenkynsflugþjóna og í fyrsta skipti í sögu félagsins er ekki skylda fyrir kvenkyns flugþjóna að klæðast háum hælum og pilsum.

Breytingin tekur gildi 1. apríl. Þetta þýðir að þær tæplega 6 þúsund konur sem starfa hjá flugfélaginu geta klæðst skóm sem þeim þykja þægilegastir. 

Ákvörðunin um breytingu á reglum um klæðnað var tekin eftir að samfélagsmiðlaherferðin #KuToo fór í loftið. #KuToo miðar að því að fá fyrirtæki til að hætta með reglur um klæðnað á vinnustað, þá sérstaklega þá kröfu um að konur þurfi að klæðast háum hælum. 

Leikkonan og baráttukonan Yumi Ishikawa hóf herferðina á samfélagsmiðlum þar sem hún sagði sögu sína af því að vinna á útfararstofu. Þar neyddist hún til að ganga í háaum hælum. 

„Þetta er stórt skref þar sem Japan Airlines er svo stórt fyrirtæki. Þetta snýst þó ekki bara um flugfélög, það eru hótel, verslanir og bankar sem hafa einnig þessar kröfur. Ég voni að þau fylgi þessu fordæmi,“ sagði Ishikawa.

mbl.is