Stjúpsonur Karls Bretaprins þekkir það besta

Camilla og Karl Bretaprins.
Camilla og Karl Bretaprins. AFP

Tom Parker Bowles er sonur Camillu hertogaynju af Cornwall og því stjúpsonur Karls Bretaprins. Parker Bowles er matargagnrýnandi og skrifar reglulega í ferðatímaritið Condé Nast Traveller. Parker Bowles ferðast mikið og þekkir það besta. Hann mælti með nokkrum stöðum á vef tímaritsins.

Eitt af leyniráðum Parker Bowles er að feraðst með sterka tabascosósu. Hann segir það krydda flugvélamatinn.

Þegar velja á uppáhaldshótel nefnir hann hótelið Bairro Alto í Lissabon en hann segir borgina eina af sínum uppáhaldsborgum í heiminum. Mexíkóborg sé einnig í miklu uppáhaldi.

Þegar kemur að stærri og fínni hótelum segir hann Mandarin Oriental-hótelið í Tókýó og Carlyle-hótelið í New York í uppáhaldi hjá sér. 

Gott er að fá góð ráð um veitingastaði hjá fólki sem veit sínu viti. Þegar matargagnrýnandinn Parker Bowles er beðinn að velja draumamáltíðina sína nefnir hann veitingastaðinn Da Adalfo á Amalfi-ströndinni á Ítalíu. Hann mælir með hvítvíni, kræklingasúpu og bökuðum mozzarellaosti á sítrónulaufum. Þrátt fyrir að hann sé ekki á leiðinni til Ítalíu akkúrat núna segist hann ætla þangað aftur.

Draumaferð Parker Bowles er ferð til Indlands en hann dreymir um að fara til Nagaland á Indlandi.

mbl.is