Sjóböðin á Húsavík í hópi fallegustu heilsulinda

Sjóböðin á Húsavík.
Sjóböðin á Húsavík. Ljósmynd/Aðsend

Geosea-sjó­böðin á Húsa­vík eru á lista yfir fallegustu heilsulindir í heimi á ferðavefnum Condé Nast Traveller. Örfáar heilsulindir á eftirsóttum stöðum á borð við New York, Ítalíu og Mexíkó eru taldar upp ásamt sjóböðunum á Húsavík. 

Heilsulindirnar sem taldar eru upp eru allar í bókinni Be Well þar sem fjallað er um ótrulega flottar heilsulindir víða um heim. Heilsulindirnar eiga það meðal annars sameiginlegt að búa yfir einstökum arkitektúr. 

Ferðavefur mbl.is benti á áhugaverða staði á Húsavík í nýlegri grein og voru sjóböðin þar á blaði. „Ein­stak­lega nota­legt er að baða sig í heit­um sjón­um og um leið horfa yfir til Kinn­ar­fjall­anna hand­an fló­ans,“ skrifaði blaðamaður. 

Aðrar heilsulindir sem þóttu skara fram úr voru meðal annars Friedrichsbad í Baden-Baden í Þýskalandi en hún er mjög glæsileg og var upphaflega byggð árið 1877. Géllert Thermal Bath í Búdapest í Ungverjalandi komst einnig á lista en sú heilsulind opnaði fyrst árið 1918. Einnig voru nýtískulegri heilsulindir á borð við The Well í New York í Bandaríkjunum og Loong Swim Club í Suzhou í Kína á lista.

Gömul heilsulind í Búdapest.
Gömul heilsulind í Búdapest. Ljósmynd/Colourbox.dk
mbl.is