Sterkur leikur að senda gleðisprengju út

Flosi Jón Ólafsson er spenntur fyrir úrslitum Söngvakeppninnar um helgina. …
Flosi Jón Ólafsson er spenntur fyrir úrslitum Söngvakeppninnar um helgina. FÁSES stendur fyrir mikilli dagskrá. Samsett mynd

Flosi Jón Ófeigsson formaður FÁSES er þéttbókaður um næstu helgi enda fara úrslit Söngvakeppninnar á RÚV fram á laugardaginn. FÁSES stendur meðal annars fyrir veglegu partíi í Iðnó eftir úrslitin. Flosi Jón segist vera ánægður með öll lögin sem eru í úrslitum í ár en segir að auðvitað eigi fólk í Félagi áhugafólks um Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva sín uppáhaldslög í Söngvakeppninni 2020.

„Við styðjum það lag sem fer áfram. Mér finnst einstaklega erfitt að velja eitt lag sem er í uppáhaldi,“ segir Flosi Jón. Flosi Jón spáir því þó að baráttan verði á milli Ivu, Daða og Dimmu.  

„Væri gaman að fá gleðisprengju“

„Öll fimm lögin hafa eitthvað til bruns og bera. Ísold og Helga eru með svo fallega ballöðu og raddirnar þeirra passa svo vel saman. Klassískt Frozen-lag, svolítið Eurovisionlag. Svo ertu með gleðisprengjuna hann Daða og hann hefur prófað þetta áður. Styrkleiki hans finnst mér vera sá að hann er með allan pakkann. Hann er með svör við öllu sem hann hefur verið spurður um eða beðinn um. Það er rosalega mikilvægt að vera með það úti. Ég held að þau muni svolítið vinna á því.“

Ísold og Helga eru komnar áfram í úrslit.
Ísold og Helga eru komnar áfram í úrslit. RÚV/Mummi Lu

„Ef ég ætti að segja eitthvað þá er búið að velja rosalega mikið af rólegum lögum í ár að það væri gaman að fá gleðisprengju, hvort sem það væri Daði eða Dimma með sitt rokk. Iva er með lagið sem ég kveikti á fyrst. Öðruvísi og flott. Með fallegri og áhrifaríkri framkomu þá gæti þetta lag gert góða hluti, kannski unnið hér heima og farið út. Hún er frábær söngkona en það vantar aðeins upp á „vá-faktorinn“ í atriðinu.“

Flosi Jón segir að Nína hafi komið sér mest á óvart og segir hana hafa átt sviðið í undanúrslitunum. Nína fór áfram sem svokallað „eitt lag enn“ og segir Flosi Jón dæmi um að slík lög hafi unnið undankeppnir erlendis og farið alla leið út í aðalkeppnina. Nefnir hann að lag Nínu sé ekta skandinavískt popp í anda þess sem heyrist í stóru undankeppninni í Svíþjóð.

Nína flutti ekki samnefnt lag heldur lagið „Ekkó“.
Nína flutti ekki samnefnt lag heldur lagið „Ekkó“. Ljósmynd/Mummi Lú

Er eitthvert lag sem þú hefðir viljað sjá fara áfram en komst ekki í úrslitin?

„Ég er mikill aðdáandi Elísabetar ef ég á að vera hreinskilinn. Því miður var þetta ekki hennar kvöld,“ segir Flosi Jón og segir Elísabetu Ormslev vera stórkostlega söngkonu.

Öll helgin lögð undir Eurovision-gleði

Flosi Jón og aðrir félagar í FÁSES byrja strax á föstudaginn að hita upp fyrir úrslitin.

„Þetta byrjar á föstudeginum hjá okkur þar sem við verðum með karókí. Að sjálfsögðu bara Eurovision-lög í boði. Það verður á Curious. Laugardagurinn er þéttbókaður. Hann byrjar á því að ég verð með Eurovision-zúmba og Eurovision-spinning í Reebok Fitness í Holtagörðum. Það er gott að brenna áður en maður fer í sukkið um kvöldið,“ segir Flosi Jón sem kennir einmitt hóptíma hjá Reebok Fitness meðfram vinnu. 

„Svo hittumst við aðdáendur á Ölveri. Það er hentugt, það er nálægt Laugardalshöllinni. Frá Ölveri örkum við saman með fána og læti og reynum að vera sýnileg í beinni útsendingu. Það eiga allir sín uppáhaldslög en við erum fyrst og fremst að láta keppendum líða vel þannig að þeir finni stuðninginn. Við höfum fengið hrós fyrir það bæði frá keppendum og frá RÚV. Kvöldinu lýkur á Júróklúbbnum sem verður í Iðnó. Þetta er í fyrsta sinn sem við tökum svona stórt verkefni að okkur að fá alvörulið með okkur til þess að skipuleggja þetta,“ segir Flosi Jón.

Norska hljómsveitin KEiiNo á sviðinu í Tel Aviv. Hljómsveitin kemur …
Norska hljómsveitin KEiiNo á sviðinu í Tel Aviv. Hljómsveitin kemur fram á Íslandi um helgina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

FÁSES sá um að fá listamennina sem koma fram í partíinu til liðs við sig en Pink Iceland og Saga Events sjá um að gera partíið eins og best verður á kosið. Norska tríóið KEiiNO kemur fram sem og Hera Björk og Regína Ósk. Einn vinsælasti Eurovision-plötusnúður í heimi, DJ OHRMEISTER frá Þýskaland, spilar svo gömul og góð Eurovision-lög. Flosi Jón segir einstaka stemmingu ríkja í svona Eurovision-partíum. Listamennirnir eru trúir aðdáendum sínum og segir Flosi Jón að stemmingin sé töluvert ólík því sem á sér stað á hefðbundnum tónleikum. Segir hann dæmi um það að gestir fari á barinn með tónlistarfólkinu.

„Þetta er vettvangur þar sem við júrónördarnir hittumst. Þeir sem hafa komið og hafa ekki verið neinir svakalegir aðdáendur en horfa á keppnina tala um að þetta séu bestu partíin. Menn taka bara þátt í gleðinni þótt þeir kunni ekki alla texta og spor eins og við aðdáendurnir.“

Hægt er að nálgast miða á Júróklúbbinn í Iðnó á heimasíðu FÁSES.

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum vinskap, líka þeim, sem þér er lítið um gefið. Félagslífið er að lifna við og þú færð boð í garðveislur í löngum bunum.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum vinskap, líka þeim, sem þér er lítið um gefið. Félagslífið er að lifna við og þú færð boð í garðveislur í löngum bunum.