Með mörg járn í eldinum í Berlín

Hugleikur Dagsson.
Hugleikur Dagsson. Ljósmynd/Dóra Dúna

Grínistinn Hugleikur Dagsson sendi nýverið frá sér uppistandsmynd á ensku á Vimeo eða svokallað „comedy special“. Aðdáendur Hugleiks geta hlýjað sér við þá tilhugsun að horfa á uppistandið á meðan samkomubann stendur yfir. Hugleikur hefur búið í Berlín síðan í haust og segir mikla óvissu ríkja í uppistandsbransanum þessa dagana. Nú þegar er búið að fresta uppistandi hans á Íslandi sem átti að fara fram í apríl.

Uppistandsmynd Hugleiks var tekin upp í fyrra og heitir Son of the Day. Hugleikur að segir að hann hafi ákveðið að setja myndina inn á Vimeo en svo er draumurinn að myndin rati inn á einhverjar streymisveitur.

„Við tókum þessa mynd upp síðasta vor, eftir 18 borga túr í gegnum Evrópu. Við enduðum í Finnlandi vegna þess að það er land sem ég get treyst á. Mikið af mínum fylgjendum eru þaðan. Bækurnar mínar seljast vel þar og alltaf þegar ég er með sýningu þar þá selst upp. Þannig það var bara tilvalið að taka upp svona „comedy special“,“ segir Hugleikur. „Við leigðum leikhús í Finnlandi og Árni Sveins leikstýrði þessu.“

„Ég myndi segja að núna væri tíminn til þess að skoða þetta grín. Þegar maður er ekkert að fara út úr húsi er um að gera kynna sér íslenskt grín á alþjóðlegum vettvangi,“ segir Hugleikur sem segir að fjöldi fólks hafi keypt myndina á fyrstu dögunum en auk þess fékk hann góð viðbrögð á samfélagsmiðlum.

Er með mörg járn í eldinum

Kórónuveiran hefur áhrif á uppistand Hugleiks. 

„Þau gigg sem ég var með bókuð hérna í Berlín, það er búið að afbóka þau öll. Svo er ég með túr núna í maí og ég veit ekkert hvernig það verður. Það er allt í lausu lofti núna. Ég er í þeirri stöðu ólíkt flestum starfandi uppistöndurum að ég er líka með aðra vinnu. Það eru teikningarnar, myndasögurnar og ég er að skrifa þannig að ég er alltaf með önnur járn í eldinum. Ég er heppinn að því leytinu til að ég get alltaf snúið mér að einhverju öðru. Ég öfunda ekki þá sem eru bara að koma fram og reiða sína afkomu á að ferðast og fara á fjölmenna staði.“

Hugleikur ætlaði að vera með sýningu í apríl á skemmtistaðnum Röntgen en vegna samkomubanns var sýningunni aflýst. Hann vonast til þess að halda uppistand á Íslandi sem fyrst. 

Hugleikur Dagsson ferðast mikið með uppistand sitt á ensku. Hér …
Hugleikur Dagsson ferðast mikið með uppistand sitt á ensku. Hér er hann í Búdapest. ljósmynd/aðsend

Ekki endilega betra að flýja heim til Íslands

Hugleikur flutti til Berlínar í haust. Eins og stendur ætlar hann ekki að flýja heim en hann á þó flugmiða í lok mars. Hann segist ætla að skoða hvernig heimurinn lítur út þá og sjá til hvort hann komi heim. 

„Ef ég fer heim þá fer ég beint í sóttkví þannig ég myndi bara vera einhverjar tvær vikur hangandi heima með sjálfum mér. Ég veit ekki hvort að það væri eitthvað betra en að vera hér.“

Þrátt fyrir öll boð og bönn og aflýsingar er Hugleikur nokkuð rólegur í Þýskalandi. Hann segir Berlín ekki vera neinn draugabæ akkúrat núna og finnst honum Þjóðverjar hafa tekið nokkuð vel á kórónuveirufaraldrinum. Tala látinna er ekki há og segir hann mikið af sjúkrarúmum í Berlín. 

Hér má nálgast mynd Hugleiks. 

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert upp á þitt besta og hefur jákvæð áhrif á umhverfi þitt með léttleika þínum. Nýttu þér andlegt og líkamlegt atgervi þitt til hins ítrasta því allt annað eru svik við sjálfan þig.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert upp á þitt besta og hefur jákvæð áhrif á umhverfi þitt með léttleika þínum. Nýttu þér andlegt og líkamlegt atgervi þitt til hins ítrasta því allt annað eru svik við sjálfan þig.