Ung stúlka í miðjum stormi

Gina Gershon og Elizabeth Berkley ræðast við í Showgirls.
Gina Gershon og Elizabeth Berkley ræðast við í Showgirls.

Fáar kvikmyndir floppuðu jafn hressilega á tíunda áratugnum og erótíska dramað Showgirls sem Paul Verhoeven leikstýrði eftir handriti Joe Eszterhas árið 1995; hún kolféll í miðasölunni og gagnrýnendur slátruðu henni eins og grunlausu haustlambi. Kom sú niðurstaða mörgum í opna skjöldu enda sló næsta mynd sem þeir félagar höfðu gert saman á undan, Basic Instinct, rækilega í gegn.

„Við gerðum augljóslega mistök,“ viðurkenndi Eszterhas í samtali við The Washington Post tveimur árum síðar. „Myndin er eitt mesta flopp okkar tíma. Hún gekk ekki í kvikmyndahúsunum, var gagnrýnendum ekki að skapi, náði sér ekki á strik á myndbandi og féll á alþjóðamarkaði. Ef til vill bar drambið okkur ofurliði. „Við getum gert allt sem okkur langar til og gengið eins langt og okkur sýnist.“ Þegar maður lítur um öxl var nauðgunarsenan hræðileg mistök. Tónlistin var auðgleymanleg og mistök voru gerð við val á leikurum.“

Að sönnu skellur fyrir þá félaga en enginn fór þó eins illa út úr Showgirls og aðalleikkonan, Elizabeth Berkley, sem var aðeins 22 ára þegar hún lék í myndinni. Hún hafði leikið í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum frá unglingsaldri en Showgirls átti að verða stóra tækifærið hennar. Það fór á annan veg.

Berkley fékk hraksmánarlega dóma fyrir frammistöðu sína og skammarverðlaunin hlóðust upp; Berkley hlaut Gyllta hindberið bæði sem versta leikkona ársins og versti nýliði ársins, auk þess sem hún var tilnefnd sem versta leikkona áratugarins og versta leikkona aldarinnar. Beið góðu heilli lægri hlut í báðum síðarnefndu flokkunum.

Umboðsmaður Berkley sneri baki við henni og aðrir umboðsmenn önsuðu ekki símtölum hennar. Hún fékk mögur hlutverk lengi á eftir í kvikmyndum og hefur raunar mest verið í sjónvarpsmyndum síðan, þeirri síðustu fyrir níu árum, auk þess að leika gestahlutverk í ýmsum sjónvarpsþáttum.

Gina Gershon og Kyle MacLachlan fóru einnig með stór hlutverk í Showgirls en voru reyndari og áttu betri verk að baki, þannig að þau magalentu ekki með sama hætti.

Elizabeth Berkley árið 2018. Mikið vatn hefur runnið til sjávar.
Elizabeth Berkley árið 2018. Mikið vatn hefur runnið til sjávar.


Fann sig í leikhúsinu

Enda þótt kvikmyndaferill Berkley hafi ekki farið á flug eftir Showgirls-floppið hefur hún notið virðingar og hylli sem sviðsleikkona, bæði á West End og á Broadway. Frægt var þegar Charles Isherwood, gagnrýnandi The New York Times, gekk svo langt að biðja hana afsökunar á fyrri skrifum um hana vegna frábærrar frammistöðu í Off-Broadway-sýningu á Hurlyburly eftir David Rabe.

Síðan gerðist hið ótrúlega; Showgirls fór að vaxa fiskur um hrygg, ekki síst meðal hinsegin fólks, sem í seinni tíð hefur borið myndina, einkum Berkley, á höndum sér. Um þetta er fjallað í væntanlegri heimildarmynd, You Don’t Nomi, en Nomi var einmitt nafnið á persónu Berkley í myndinni.

Þar er meðal annars að finna ræðu sem Berkley flutti við sýningu myndarinnar, í tilefni af tuttugu ára afmæli hennar fyrir fimm árum.

„Það var dásamlegt að gera þessa mynd,“ sagði hún við opinmynnta áhorfendurna. „Að lifa draum er engu líkt. Einmitt þess vegna var sársaukinn óbærilegur þegar myndin var frumsýnd. 1995 voru aðrir tímar, ekki var í tísku að taka áhættu eins og við gerðum. Hlegið var að slíku. Og skórinn níddur af okkur opinberlega. Það var ekki auðvelt að vera ung stúlka í þeim stormi miðjum. En ég fann seigluna, kraftinn og sjálfstraustið – ekki bara vegna þessarar erfiðu reynslu, heldur ekki síður vegna ykkar allra.“

Hún uppskar dynjandi lófatak.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert upp á þitt besta og hefur jákvæð áhrif á umhverfi þitt með léttleika þínum. Nýttu þér andlegt og líkamlegt atgervi þitt til hins ítrasta því allt annað eru svik við sjálfan þig.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert upp á þitt besta og hefur jákvæð áhrif á umhverfi þitt með léttleika þínum. Nýttu þér andlegt og líkamlegt atgervi þitt til hins ítrasta því allt annað eru svik við sjálfan þig.