Íslenska óperan sendir út aríu dagsins

Steinunn Birna Ragnarsdóttir óperustjóri.
Steinunn Birna Ragnarsdóttir óperustjóri. mbl.is/Hari

„Í ljósi þeirra einstöku aðstæðna sem nú eru uppi mun Íslenska óperan leggja sitt af mörkum til að stytta fólki stundir,“ segir Steinunn Birna Ragnarsdóttir óperustjóri. Framlag Íslensku óperunnar felst annars vegar í aríu dagsins sem hleypt verður af stokkunum í dag og hins vegar „Einu sinni var“ sem er nokkurs konar faðmlag við fortíðina þar sem streymt verður völdum uppfærslum Íslensku óperunnar.

„Mér fannst okkur renna blóðið til skyldunnar að gleðja landsmenn með fallegum söng,“ segir Steinunn Birna í samtali við Morgunblaðið í dag.

„Við sjáum hvað er að gerast á Ítalíu þar sem fólk í einangrun kemur saman á kvöldin á svölum húsa sinna og syngur saman til þess að halda gleðinni, enda er Ítalía vagga söngsins og þar var óperulistformið upprunnið fyrir rúmum 400 árum. Fólk grípur til tónlistarinnar á erfiðum tímum. Með því að bjóða upp á aríu dagsins erum við að auka lífsgæði þjóðarinnar og stytta þeim stundir sem lokaðir eru inni heima.“

Aldrei mikilvægara en í krefjandi aðstæðum

Á sama tíma erum við að styðja við sjálfstæðu senuna og einyrkja í hópi listamanna sem eru að missa tekjur sínar vegna ástandsins, því allir sem fram koma hjá okkur fá auðvitað greitt fyrir vinnu sína,“ segir Steinunn Birna og bendir á að hlutverk listanna sé aldrei mikilvægara en í krefjandi aðstæðum sem þessum. „Og þetta eru einhverjar erfiðustu aðstæður sem við höfum upplifað.“

Aría dagsins er Chi il bel sogno di Doretta, úr óperunni La Rodine eftir Giacomo Puccini, og er sungin af sópransöngkonunni Dísellu Lárusdóttur sem nýverið fékk Íslensku tónlistarverðlaunin sem söngkona ársins. Með henni leikur Bjarni Frímann Bjarnason.

Gullkistan opnuð

„„Einu sinni var“ felur í sér að við opnum gullkistuna okkar sem býr yfir fjársjóðum fortíðarinnar,“ segir Steinunn Birna og vísar til þess að upptökur af eldri uppfærslum Íslensku óperunnar verði sendar út á netinu þannig að allir landsmenn geti notið góðs af. „Við munum til skiptis sýna nýrri og eldri uppfærslur. Þetta er einstakt tækifæri fyrir þá sem eru fastir heima og fólk sem býr á landsbyggðinni og hefur lengra að sækja sýningar Íslensku óperunnar til þess að upplifa þær í stofunni heima hjá sér,“ segir Steinunn Birna og tekur fram að miðað sé við að streyma einni óperu á viku á þriðjudögum á meðan samkomubannið er í gildi.

Pagliacci ríður á vaðið

„Í þessari viku munum við streyma upptöku af Pagliacci eftir Leoncavallo sem Íslenska óperan setti upp í Gamla bíói 1990 þar sem Garðar Cortes og Ólöf Kolbrún Harðardóttir voru í aðalhlutverkum,“ segir Steinunn Birna og rifjar upp að Pagliacci hafi verið fyrsta óperan sem Íslenska óperan setti upp fyrir 40 árum.

Í framhaldinu verður sýnd upptaka af La Bohème eftir Puccini sem sett var upp í Hörpu árið 2012 í leikstjórn Jamie Hayes þar sem Daníel Bjarnason hélt um tónsprotann. Því næst verður Aida eftir Verdi sýnd, en þar er um að ræða upptöku frá 1988. Leikstjóri var Bríet Héðinsdóttir og hljómsveitarstjóri Gerhard Deckert.

Í aðalhlutverkum voru Ólöf Kolbrún Harðardóttir og Garðar Cortes. Uppfærsla Íslensku óperunnar á Évgeni Onegin eftir Tsjajkovskíj í Hörpu 2016 er næst í röðinni. Leikstjóri var Anthony Pilavachi og hljómsveitarstjóri Benjamin Levy, en í helstu hlutverkum voru Andrey Zhilikhovsky, Þóra Einarsdóttir og Elmar Gilbertsson.

Af öðrum uppfærslum sem sýndar verða á næstu vikum eru Sardasfurstynjan eftir Kálmán sem sýnd var í Gamla bíói 1993 með Signýju Sæmundsdóttur í aðalhlutverki; Otello eftir Verdi sem sýndur var í Gamla bíói 1992 með Garðari Cortes í titilhlutverkinu, Brottnámið úr kvennabúrinu eftir Mozart sem sýnt var í Gamla bíói 2006 og Tosca eftir Puccini frá 2017 með Claire Rutter, Kristjáni Jóhannssyni og Ólafi Kjartani Sigurðarsyni. Allar upptökur má nálgast á vef Íslensku óperunnar, opera.is og á Youtube-rás Íslensku óperunnar.

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið [email protected].

Stöndum saman

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert upp á þitt besta og hefur jákvæð áhrif á umhverfi þitt með léttleika þínum. Nýttu þér andlegt og líkamlegt atgervi þitt til hins ítrasta því allt annað eru svik við sjálfan þig.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert upp á þitt besta og hefur jákvæð áhrif á umhverfi þitt með léttleika þínum. Nýttu þér andlegt og líkamlegt atgervi þitt til hins ítrasta því allt annað eru svik við sjálfan þig.