Baltasar segir meiri smithættu heima en úti

Baltasar Kormákur.
Baltasar Kormákur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Leikstjórinn Baltasar Kormákur er í viðtali um ástandið í heiminum á vef Vulture. Hann segir Íslendinga rólega og eru eldgos honum ofarlega í huga. Eins og svo margir hefur Baltasar þurft að breyta sínum áætlunum. 

Baltasar talar vel um viðbrögð almannavarna og segir að vel hafi verið staðið að því að rekja smit. 

„Á Íslandi erum við líka vön eldgosum og hræðilegu veðri svo fólk hefur tilhneigingu til að vera rólegt í aðstæðum sem þessum,“ segir Baltasar um íslensku þjóðina. Hann nefnir auk þess hrunið árið 2008 og gosið í Eyjafjallajökli sem kom stuttu seinna. 

Baltasar þurfti að hætta í tökum fyrir nokkrum vikum og hefur meðal annars horft á sjónvarpsþætti og kvikmyndir. Eins og svo margir datt hann inn í Tiger King á Netflix. Hann er búinn að horfa á Come and See eftir Elem Klimov sem hann segir vera í uppáhaldi. Hann horfði einnig aftur á The Favourite og Border frá því í fyrra og Cold War. Hann er sömuleiðis búinn að sjá dönsku myndina Reconstruction. „Ég er frekar að horfa á gamlar myndir en nýjar. Eins og Solaris eftir Tarkovsky. Þegar ég þarf á innblæstri að halda kíki ég á efni sem mér fannst gott áður fyrr.“

Baltasar segir að fólk í kvikmyndabransanum hafi fyrir nokkrum vikum ekki áttað sig á því að ástandið yrði eins og nú. Sjálfur átti hann að vera á leiðinni til Púertó Ríkó í leit að tökustöðum fyrir mynd með Mark Wahlberg. Nú er búið að fresta því þangað til hann veit ekki hvenær. 

„Nú fæ ég meiri undirbúningstíma. Ég get unnið að handritum,“ segir Baltasar.

„Ég á líka stóra fjölskyldu svo það er í rauninni meiri hætta inni á heimili mínu en úti. Ég á fjögur börn og þau eiga öll kærasta og kærustur sem eiga líka fjölskyldur svo ég smitast líklega einhvern tímann. Ég er líkamlega hraustur og ég er ekki með neina undirliggjandi sjúkdóma en pabbi minn er í krabbameinsmeðferð svo ég held mig fjarri honum. Hann er í sjálfskipaðri sóttkví.“

Íslenski leikstjórinn segir að lokum að atburðir eins og eldgos og veirur minni okkur á að við búum á plánetunni jörð sem er svo miklu stærri en við sjálf. Hann segir fólk stundum gleyma því og haldi jafnframt að heimsfaraldrar hafi bara verið í gamla daga og við höfum stjórn á þeim í dag. „Allt þetta kemur aftur, hvort sem það eru eldgos eða veirur. Jörðin er að segja okkur eitthvað. Náttúran er að segja okkur eitthvað.“

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Notfærðu þér þann hæfileika þinn að vera fundvís á missmíðir. Njóttu þess að vera með öðrum og að deila draumum þínum og framtíðarvonum með þeim.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Notfærðu þér þann hæfileika þinn að vera fundvís á missmíðir. Njóttu þess að vera með öðrum og að deila draumum þínum og framtíðarvonum með þeim.