Daði sigraði í Eurostream 2020

Daði og gagnamagnið sigruðu Eurostream 2020, keppni sem haldin var …
Daði og gagnamagnið sigruðu Eurostream 2020, keppni sem haldin var af fjölda aðdáendasíðna um söngvakeppnina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Daði og gagnamagnið hrósuðu sigri í Eurostream 2020 sem haldin var í gærkvöld. Keppnin er ein af fjölmörgu „fjar-Eurovisionkeppnum“ sem haldnar hafa verið eftir að aðalkeppnin í ár var blásin af sökum kórónuveirufaraldursins. 

Eurostream 2020  var frekar stór í sniðum þar sem nærri tuttugu Eurovision-aðdáendasíður sameinuðu krafta sína og héldu sína eigin keppni, að því er segir á Facebook-síðu FÁSES (Félags áhugafólks um Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva). 

Keppnin var með þeim hætti líkt og aðdáendur þekkja hana, lögin voru flutt og fagdómnefndir í bland við kosningu almennings réðu úrslitum. Óhætt er að segja að Daði og gagnamagnið hafi sigrað með yfirburðum. Ísland fékk alls 434 stig en næst á eftir kom Litháen með 303 stig. Þetta er ekki fyrsta keppnin sem Daði sigrar og af umræðum um Eurovision á Facebook-hópnum Júróvisjón 2020 er ekki spurning hvort heldur hvar keppnin ætti að fara fram hérlendis að ári. 

Íslenska dómnefndin var skipuð þeim Benedikt Brynleifssyni trommuleikara, Helgu Möller söngkonu, Kristjáni Viðar Haraldssyni tónskáldi og Lovísu Árnadóttur upplýsingafulltrúa. Benedikt og Helga hafa tekið þátt í Eurovision en Kristján og Lovísa hafa setið í dómnefnd fyrir Íslands hönd í fyrr aðalkeppnum. 

En þá er ekki allt upp talið því álitsgjafar hjá sænska sjónvarpinu völdu framlag Íslands það besta í ár í sérstökum þætti í gær sem svipar til „Alla leið“ sem sýndur er á RÚV þessar vikurnar undir stjórn Felix Bergssonar. Venju samkvæmt hefði Eurovision-vikan átt að hefjast í dag en í staðinn verður vegleg Eurovision-veisla á RÚV alla vikuna. 

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú finnur á þér að eitthvað er í uppsiglingu milli þín og ástvinar þíns. Samúð og varúð, eru við hæfi.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú finnur á þér að eitthvað er í uppsiglingu milli þín og ástvinar þíns. Samúð og varúð, eru við hæfi.