Plata úr viði en ekki plasti

Special-K eða Katrín Helga Andrésdóttir.
Special-K eða Katrín Helga Andrésdóttir. Ljósmynd/Kristín Helga Ríkharðsdóttir

helgi Snær Sigurðsson

[email protected]

Tónlistarkonan Special-K, réttu nafni Katrín Helga Andrésdóttir, sendir í dag frá sér EP-plötuna LUnatic thirST en það er fyrirtækið Street Pulse Records sem gefur út. Í tilkynningu segir að ef fyrsta plata hennar, I Thought I'd Be More Famous by Now, væri unglingur þá væri LUnatic thirST fullorðin manneskja. Special-K kafi nú dýpra í sjálfskoðun sinni, alvarleg í bragði en þó eilítið hortug.

Special-K er sólóverkefni og fyrsta plata Katrínar var dæmigert eins-manns-bílskúrs-verkefni, að hennar sögn. „Smám saman er ég búin að vera að sanka að mér ýmsum samstarfsaðilum sem ljá mér hæfileika sína við og við, eins og til dæmis Sölku Valsdóttur sem tók upp og hljóðblandaði með mér LUnatic thirST og Kristínu Helgu Ríkharðsdóttur sem á stóran þátt í sjónrænni framsetningu Special-K,“ segir hún.

Umslag LUnatic thirST.
Umslag LUnatic thirST.

Óraunhæfar væntingar

– Hvers vegna valdirðu þetta nafn, Special-K?

„Þegar ég gerði fyrstu plötuna mína, I Thought I'd Be More Famous by Now, var ég mikið að pæla í aldamótakynslóðinni. Eitt af því sem er sagt einkenna okkur er að við séum öll sannfærð um að við séum einstök. Platan var hálfgert uppgjör við þessar mikilmennskuhugmyndir – leið til að horfast í augu við óraunhæfar væntingar og sætta sig við strangheiðarlega meðalmennsku.

K-ið er svo vísun í Katrínu, nafnið mitt. Seinna komst ég að því að Special K er í dag mest notað í samhengi við hið vinsæla eiturlyf ketamín, sem er vafalaust gott fyrir rokkstjörnuímyndina,“ svarar Katrín og sendir sólgleraugnabroskall, sem er því miður ekki að finna í tjáknasafni umbrotskerfis Morgunblaðsins.

– Óttastu ekkert að Kellogg's fari í mál við þig?

„Það væri þá til marks um að ég væri búin að slá í gegn ef svo stórt fyrirtæki myndi nenna að eltast við mig, einhvern grasrótarlistamann á Íslandi, og ég tæki því fagnandi!“ svarar Katrín en til skýringar þá framleiðir Kellogg's morgunverðarkorn sem nefnist Special K.

Special-K með ónefndum vini sínum.
Special-K með ónefndum vini sínum. Ljósmynd/Kristín Helga Ríkharðsdóttir

Kynfræðslutónlist

– Segðu lesendum aðeins frá þér, hver er Katrín Helga Andrésdóttir og hvað fékk þig til að feta þessa braut, að gerast tónlistarkona?

„Ég ákvað að verða tónlistarkona þegar ég var um það bil 15 ára og upplifði mig dálítið á skjön við jafnaldra mína á sama tíma og ég var að uppgötva íslensku tónlistarsenuna. Ég sá hana í hillingum sem vettvang þar sem ég gæti átt heima. Ég hef reyndar verið að semja lög frá því að ég man eftir mér; þegar ég var í fyrsta bekk mætti ég einu sinni með kassettu í skólann fulla af frumsömdu efni sem ég lét kennarann spila fyrir bekkinn. Ég var líka í kór og alls kyns hljóðfæranámi sem barn.

Einhverra hluta vegna ákvað ég að sveigja út af tónlistarbrautinni eftir að hafa keppt í úrslitum Músíktilrauna 2009, þá sextán ára. Ég held ég hafi einfaldlega ekki þorað að halda áfram. Blessunarlega dróst ég aftur inn í hringiðuna þegar eldri systir mín plataði mig til að stofna með sér hina umdeildu hljómsveit Hljómsveitt, sem sérhæfði sig í því sem við kölluðum „kynfræðslutónlist“.

Stuttu seinna var ég allt í einu með í því að stofna Reykjavíkurdætur og einhverju seinna bauð Sóley Stefánsdóttir mér að ganga til liðs við hljómsveit sína og spila með sér á tónleikaferðalögum um heiminn. Það held ég að hafi átt upptök sín í fyrirspurn sem ég sendi henni á Facebook um hvernig maður færi að því að verða tónlistarkona.“

Hér má sjá myndband við lag Special-K, „Post Coital“. 

Lítið sofið og mikil kaffidrykkja

„Samhliða þessu öllu kláraði ég myndlist í LHÍ og framhaldspróf í klassískum píanóleik frá Tónlistarskóla FÍH og stakk svo af til Berlínar þar sem ég stofnaði meðal annars nýjustu hljómsveitina mína, Ultraflex, sem er einmitt að gefa út sitt fyrsta lag og myndband viku eftir að LUnatic thirST kemur út. Vikuna þar á eftir kemur svo út önnur breiðskífa Reykjavíkurdætra, Soft Spot. Það er því lítið sofið og mikið kaffi drukkið þessa dagana, sem mér finnst alltaf gaman!“ svarar Katrín, létt í bragði.

Grallaralegur heiðarleiki

– Í lýsingu á tónleikum með Special-K, sem þá var hljómsveit, árið 2018 skrifar Arnar Eggert Thoroddsen m.a. að tónlistin hafi afvopnað mannskapinn í grallaralegum heiðarleika. Er það lýsandi fyrir tónlist þína, er hún grallaralega heiðarleg?

„Mér þykir vænt um þessa lýsingu og finnst hún vera til marks um það að Arnar Eggert skilji mig, haha. Ég myndi segja að þetta væri vel orðað og vona að fleiri hafi þessa sýn á það sem ég er að gera.“

– Segðu mér frá þessari plötu sem er að koma út, hvað hefur hún að geyma mörg lög, hvernig eru útsetningar og um hvað ertu að syngja?

„Þetta er stutt EP-plata, bara fjögur lög en hún er þó ansi massív, að mínu mati. Lögin eru fjölbreytt hvað varðar stemningu og stílbrögð en eiga það sameiginlegt að fjalla á einn eða annan hátt um innri togstreitu þess sem þráir nánd en er hrædd/ur við að fórna sjálfstæði sínu og/eða vera skilinn eftir með sárt ennið. Ef þið þekkið lagið „Cactus Tree“ með Joni Mitchell þurfið þið líklega ekki að hlusta á þessa plötu, það segir allt sem segja þarf.“

Hér má sjá myndband við lag Special-K, „Quest to Impress“. 

Seiðandi sírenusöngur, varúð!

Katrín heldur áfram: „LUnatic thirST var tekin upp í hljóðveri og hefur því aðeins fínpússaðra yfirbragð en síðasta plata mín, en hún er engu að síður nokkuð áþreifanlega akústísk og einhvern veginn úr viði en ekki plasti eða málmi ef það er hægt að orða það þannig. Ég spilaði á flest hljóðfærin sjálf en fékk svo vini til að spila meðal annars á klarinett, básúnu og þeramín. Ef ég ætti að lýsa hverju og einu lagi í þremur orðum þá myndi ég segja: 1. Quest to Impress: Grallaralegt barokkævintýri. 2. Post Coital: Nístandi áferðarmjúkur jarðarfararmars. 3. Dinner For 1: Sjálfstæðisyfirlýsing eða uppgjöf? 4. Bubble Wrap: Seiðandi sírenusöngur, varúð!“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að sýna meiri hugkvæmni til þess að leysa það vandamál, sem nú brennur á þér. Fólk sem ýtir undir vellíðan er uppáhalds félagsskapurinn þinn.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að sýna meiri hugkvæmni til þess að leysa það vandamál, sem nú brennur á þér. Fólk sem ýtir undir vellíðan er uppáhalds félagsskapurinn þinn.