Eins og í Bond-mynd

Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson.
Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson. Ljósmynd/Auðunn Níelsson

Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, framkvæmdastjóri SinfoniaNord, líkir ástandinu við upptökur á tónlist fyrir erlend fyrirtæki í Hofi, á undanförnum vikum, við kvikmynd um njósnarann James Bond. Nýverið lauk tökum á tónlist fyrir tvær kvikmyndir fyrir streymisveituna Netflix með heimsfrægum leikurum í aðalhlutverkum og segir Þorvaldur mjög strangar reglur hafa verið settar vegna COVID-19-farsóttarinnar.

20 á sviðið í einu

„Við fengum beiðni um hvort við gætum tekið upp og hvort það væri leyfi hér til þess og við sögðum einfaldlega já. Þá hélt ég að þetta væri staðfest og við færum bara að gera þetta eins og venjulega því við værum hvort eð er með leyfi fyrir 20 manna samkomum. Þeir vildu fá um 40 manna strengjasveit og við komum með þá tillögu að taka upp efri hluta strengjanna sér og selló og bassa sér og þá væru aldrei fleiri en 19 á sviðinu, 20 með stjórnanda. Það þótti strax geta gengið upp en þá byrjuðu „risk assessment“-kröfur Bandaríkjanna. Við fengum skjal með endalausum spurningum um hvernig við ætluðum að framkvæma þetta og í ljós kom að engin leið væri að gera þetta nema vera með a.m.k. eitt fyrirtæki sem sérhæfði sig í heilsuvernd og með hjúkrunarkonur á svæðinu. Enginn mátti koma inn og byrja að vinna nema hann væri búinn að svara spurningalista og búinn að fara í próf til að athuga hvort viðkomandi væri með hita eða einhver einkenni,“ segir Þorvaldur og nefnir að einum hljóðfæraleikara hafi verið hafnað vegna COVID-19-einkenna. Hann reyndist þó ekki vera með veiruna.

Öryggisverðir, spritt og grímur

Til að byrja með var farið fram á að allir hljóðfæraleikararnir færu í sýnatöku en Þorvaldur segir að hætt hafi verið við það þegar í ljós kom hversu hár kostnaðurinn yrði og hversu tímafrekt yrði að prófa alla. Því hafi verið ákveðið að Hof mætti aðeins vera með einn inngang opinn og að ráða þyrfti öryggisverði sem pössuðu upp á að aldrei mynduðust raðir fyrir utan. Verðirnir sáu til þess að allir væru sprittaðir og fengju grímur og þurftu svo hljóðfæraleikarar að fara að sínum borðum í sal sem voru merkt með nöfnum þeirra. Hver og einn fékk box með mat og þess gætt að tveir metrar væru á milli allra. Þegar skipt var um hljóðfærahópa kom hreingerningahópur inn í salinn og sótthreinsaði allt. „Þetta var eins og hernaðaráætlun,“ segir Þorvaldur.

Með vaðið fyrir neðan sig

SinofiaNord-verkefnið er það umsvifamikið, að sögn Þorvaldar, að kalla þarf til hljóðfæraleikara víða að. Þeir eru einfaldlega ekki nógu margir fyrir norðan. „Þetta verkefni nær því um allt Ísland og stundum út fyrir það,“ segir hann.

En hvernig stendur á því að erlend fyrirtæki, bandarísk eða frá öðrum löndum, geta gert svo strangar kröfur um sóttvarnir á Íslandi? Var einhver á þeirra vegum á staðnum? „Það var enginn frá þeim á staðnum, þannig séð, þeir mega einfaldlega ekki ferðast og við bjóðum upp á fjarupptökur þar sem viðskiptavinurinn er í sínu eigin hljóðveri og fylgist með í rauntíma í gegnum forrit sem heitir Source Connect Live,“ svarar Þorvaldur, „en þetta er algjörlega vegna þess að í Bandaríkjunum og í þessum alþjóðlega bransa eru svo rosaleg tryggingaviðurlög. Ef það hefði komið upp smit hér og frést að Netflix hefði haldið áfram að framleiða og það valdið frekari smitum hefðu þeir verið lögsóttir í bak og fyrir og það hefðu líka verið vond almannatengsl. Þeir vildu nýta sér þjónustuna og í ljós kom að við vorum eina hljómsveitin í heiminum sem gat gert þetta út af því hvernig stjórnvöld hafa tekið á þessu hér. Við urðum miðpunktur athyglinnar í bransanum og ég hef ekki undan þessa dagana að svara fyrirtækjum, EMI, Sony, sjálfstæðum fyrirtækjum, One Little Indian og fleirum,“ segir Þorvaldur. Hann segist búinn að senda kostnaðaráætlun á fjölda fyrirtækja og að mörg verkefni séu í biðstöðu. Það megi því búast við annríkissumri hjá SinfoniuNord en nú þegar hafa upptökur fyrir eina Hollywood-mynd, innlenda mynd og söngleik verið bókaðar í Hofi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú vilt ekki vera steypt/ur í sama mót og aðrir og ferð þínar eigin leiðir í skoðunum og lífinu sjálfu. Einhver biður þig um hjálp.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú vilt ekki vera steypt/ur í sama mót og aðrir og ferð þínar eigin leiðir í skoðunum og lífinu sjálfu. Einhver biður þig um hjálp.