Meirihlutinn ungir öryrkjar

Meirihlutinn ungir öryrkjar

Málefni - Samfélagsmál

Meirihlutinn ungir öryrkjar

Málefni - Samfélagsmál

Meirihluti þeirra sem eru á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði í Reykjavík eru ungir öryrkjar. 1. september í fyrra voru 944 einstaklingar á biðlistanum, þar af voru 540 yngri en 40 ára og 62% þeirra sem voru á listanum voru öryrkjar. Tæplega 90% eru með íslenskt ríkisfang. Um áramót var 901 á biðlista yfir félagslegt leiguhúsnæði í Reykjavík.

Allir sögðust hafa gist meira og minna í neyðarskýlunum þann …
Allir sögðust hafa gist meira og minna í neyðarskýlunum þann tíma sem þeir hefðu verið heimilislausir. mbl.is/Hari

Á fundi velferðarráðs í vikunni voru kaup Félagsbústaða á húsnæði á næstu fimm árum kynnt auk þess sem farið var yfir könnun velferðarsviðs á væntingum og þörfum þeirra sem bíða eftir félagslegu húsnæði og þjónustukönnun meðal leigjenda Félagsbústaða.

Kannað var viðhorf þeirra sem eru heimilislausir og þurfa búsetu með stuðningi og nýta sér neyðarskýli Reykjavíkurborgar í dag, þeirra sem eru á lista eftir almennu félagslegu húsnæði og þeirra sem leigja félagslegt húsnæði bæði almennt og sértækt.

Alls voru tekin viðtöl við 14 einstaklinga, sex konur og átta karlmenn, í fjórum heimsóknum í Gistiskýlið og Konukot. Fimm viðmælendur voru af erlendum uppruna.Tólf viðmælendur gistu í neyðarskýlunum vegna heimilisleysis. Viðmælendur höfðu verið heimilislausir frá allt að fjórum mánuðum upp í 15 ár.

Allir sögðust hafa gist meira og minna í neyðarskýlunum þann tíma sem þeir hefðu verið heimilislausir. Einnig sögðust viðmælendur hafa gist í bílnum sínum, á áfangaheimili og hjá vinum og ættingjum.

Allir viðmælendur að einum undanskildum sögðust hafa leitað sér aðstoðar hjá félagsþjónustunni vegna aðstöðu sinnar. Einnig höfðu viðmælendur notið aðstoðar VORteymis velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Allir viðmælendur í Konukoti og fjórir af átta viðmælendum í Gistiskýlinu sögðust vera á biðlista eftir félagslegu húsnæði í sínu bæjarfélagi. Einn viðmælandi var á biðlista eftir að komast í smáhýsi.

Sex af átta viðmælendum í Gistiskýlinu töldu sig þurfa á búsetu með stuðningi að halda. Meðal þess stuðnings sem þeir vildu var hjálp við heimilisþrif og stuðningur vegna fíknivanda.

Tveir af sex viðmælendum í Konukoti sögðust þurfa á einhvers skonar stuðningi að halda í búsetu. Meðal þess stuðnings sem þær vildu var fjölþættur stuðningur á borð við andlegan og félagslegan stuðning.

Misjafnt var hvort viðmælendur gátu hugsað sér að búa í búsetuúrræði þar sem einstaklingar mættu vera í neyslu. Einn viðmælandi taldi það ekki myndu hjálpa sér að viðhalda edrúmennsku á meðan annar viðmælandi gat hugsað sér „blautt“ búsetuúrræði svo lengi sem því fylgdi ekki mikið ónæði.

Spurðir um hvort viðmælendur þyrftu almennt á einhverri þjónustu að halda (á borð við áfengismeðferð, aðstoð vegna geðræns/líkamlegs vanda) sögðu níu viðmælendur að þeir þyrftu á aðstoð að halda. Aðstoðin var fyrst og fremst vegna áfengis- og/eða vímuefnaneyslu, en einnig var nefndur stuðningur vegna ágengni annarra sem væru heimilislausir og aðstoð vegna geðrænna vanda á borð við kvíða, félagsfælni og annars vanda. Tveir viðmælendur sögðu það þurfa að koma í ljós þegar þeir fengju húsnæði hvaða aðstoð þeir þyrftu á að halda þar sem þeir gerðu sér ekki grein fyrir því í dag.

Dæmi um húsnæðisúrræði fólks sem rætt var við:

Ung kona býr í herbergi hjá móður sinni með ungt barn. Framtíðin óljós þar sem húsnæðið er á sölu.

Ung kona gistir hjá ömmu sinni eftir sambandsslit við barnsföður sinn. Er með sameiginlega forsjá yfir tveimur ungum börnum en getur ekki haft þau hjá sér og því búa þau hjá föður sínum.

Eftir að hafa dvalið í Kvennaathvarfinu býr viðkomandi í einu herbergi, með tvær unglingsstúlkur, hjá móður sinni. Aðstæður hjá móður hennar slæmar og að hennar sögn ekki viðunandi fyrir börnin.

Ung stúlka býr að eigin sögn af „illri nauðsyn“ hjá kærastanum sínum. Hún segist búa hjá honum vegna þess að hún hafi ekki í önnur hús að venda.

Ungur maður sefur oftast á sófum hjá vinum sínum en þess á milli hjá foreldrum sínum.  Viðmælandi sefur á sófa inni í stofu hjá föður sínum. Vill gjarnan vera með unglingsson sinn meira en hann getur ekki boðið honum upp á þær húsnæðisaðstæður sem hann býr við.

Tíu viðmælendur í rýnihópunum sögðust leigja herbergi eða íbúð á almennum leigumarkaði. Tveir viðmælendur greindu frá því að þeir væru að missa íbúðirnar sem þeir leigðu. Annar vegna sölu á eigninni og hinn vegna þess að húsnæðið væri óíbúðarhæft. Báðir viðmælendur voru með ung börn og sögðust ekki vita hvert þeir færu í kjölfarið.

Einn viðmælandi sagðist leigja 50 fermetra ósamþykkta íbúð í fjölbýli. Hann borgar háa leigu og líður ekki vel í íbúðinni.

Annað sem viðmælendur nefndu var að:

  • Leiguverð væri of hátt 
  • Mikið óöryggi sem leigjandi 
  • Tíðir flutningar fylgja því að vera á almennum leigumarkaði
  • Menn safna skuldum á almennum leigumarkaði í stað þess að leggja til hliðar.

Einn viðmælandi býr á geðdeild og hefur ekkert húsnæði sem bíður hans þegar hann útskrifast. Annar viðmælandi býr á áfangaheimili í kjölfar fangelsisvistar. Hann var ekki vongóður um að fá íbúð á almennum leigumarkaði vegna fortíðar sinnar.

Aðstæður sem fólk býr við eru ekki boðlegar fyrir börn.
Aðstæður sem fólk býr við eru ekki boðlegar fyrir börn. mbl.is/Hari

Eitt af því sem fólk nefndi voru áhrif á börnin:

Það hefði mikil áhrif á viðmælanda og börnin að viðkomandi geti ekki haft þau hjá sér. Börnin væru kvíðin og skildu ekki af hverju þau geti ekki búið hjá sér.

Annar viðmælandi sagði húsnæðisaðstæður sínar hafa haft áhrif á heilsufar dóttur sinnar en húsnæðið sem hún leigði væri óíbúðarhæft vegna myglu og leka.

Það væri niðurlægjandi fyrir unglinga að deila herbergi með móður sinni. Það hafi neikvæð félagsleg áhrif en sem dæmi bjóða þær ekki öðrum börnum í heimsókn.

Tíðir flutningar hafa mikil áhrif á börnin.  Að búa inni á ættingja stuðlar ekki að þeim heilbrigðu og uppbyggjandi aðstæðum sem börnin þurfa á að halda. Alvarleg andleg veikindi séu til staðar vegna aðstæðnanna sem þær búa við. „Það að vera hjá mömmu sinni þýðir ekki endilega að maður sé í öruggu húsnæði.“

Óvissa á leigumarkaði er erfið og andleg líðan smitast yfir á börnin. Slæm áhrif á börnin að þurfa að skipta um skóla og íþróttafélög vegna flutninga. Sérstaklega slæmt fyrir börn með persónulegan vanda og sem þurfa á rútínu og skipulagi að halda.

Slæm áhrif á andlega líðan að búa inni á öðrum einstaklingi í óheilbrigðu sambandi af „illri nauðsyn“. Mikið óöryggi skapast af því að flakka á milli vina og ættingja. Ótti við að fá ekki húsnæði þar sem gæludýr eru velkomin.

Mikill streituvaldur að vera komin/n á efri ár og þurfa að vera í eilífu „ströggli“ við að komast í öruggt húsnæði. „Húsnæðisöryggi er grunnþörf sem við þurfum öll [á að halda]“ 

Fjölga íbúðum um 600

Félagsbústaðir hyggjast fjölga íbúðum um rúmlega 600 á næstu fimm árum, eða á tímabilinu 2018 til 2023. Á árinu 2018 voru 99 íbúðir keyptar eða byggðar og fengu 146 einstaklingar úthlutað almennum félagslegum íbúðum auk þess sem 66 einstaklingar fengu úthlutað þjónustuíbúðum fyrir aldraða. Loks fengu 30 úthlutað sértækum íbúðum.

Af þeim sem fá úthlutun í almennar félagslegar íbúðir er meðalbiðtíminn 36 mánuðir eða þrjú ár.

Um 79% íbúa Félagsbústaða eru frekar eða mjög ánægðir með að leigja hjá félaginu en 13% eru frekar eða mjög óánægð og 7% segjast hvorki ánægð né óánægð. Þetta er meðal þess sem fram kemur í könnun sem MMR gerði fyrir Félagsbústaði á viðhorfum leigjenda félagsins. Alls voru 846 leigendur Félagsbústaða í úrtakinu og var svarhlutfallið 35%.

Samkvæmt könnuninni eru 63% leigjenda frekar eða mjög ánægð með þjónustu Félagsbústaða, 22% eru frekar eða mjög óánægðir og 15% taka ekki afstöðu til spurningarinnar.

Verið er að bregðast með ýmsum hætti við lausn húsnæðismála fyrir þann hóp sem rannsóknin nær til. Neyðarskýli fyrir unga fíkniefnaneytendur verður opnað á Grandagarði í vor  og  unnið er að skipulagi á lóðum fyrir smáhýsi sem verða staðsett í nokkrum þyrpingum. Auk þess er áætlað að 600 nýjar félagslegar leiguíbúðir verði byggðar eða keyptar í Reykjavík til ársins 2023, segir í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Skýrslan í heild 

mbl.is