Lugu fyrir starfsbróður sinn

Frá mótmælum í Chicago árið 2015.
Frá mótmælum í Chicago árið 2015. AFP

Ákæruvaldið í Chicago hefur ákært þrjá núverandi og fyrrverandi lögreglumenn fyrir að hylma yfir sannleikann um örlög Laquan McDonald, svarts tánings sem var skotinn til bana af lögregluþjón fyrir þremur árum.

David March, Joseph Walsh og Thomas Gaffney hafa verið ákærðir fyrir samsæri, misferli í starfi og fyrir að hindra framgang réttvísinnar fyrir að segja ekki satt og rétt frá um það þegar McDonald lést.

Jason Van Dyke á yfir höfði sér morðákæru fyrir að hafa skotið hinn 17 ára McDonald árið 2014.

Upptökur úr mælaborði lögreglubifreiðar, sem birtar voru í nóvember 2015, leiddu í ljós að McDonald hefði ekki kastað sér í áttina að Van Dyke og otað að honum hníf eins og lögreglumennirnir báru vitni um, heldur var hann að ganga frá lögreglubílnum þegar hann var skotinn 16 sinnum í bakið.

Síðustu skotin hæfðu unglingspiltinn þar sem hann lá í jörðinni.

Lögreglustjóri Chicago var látinn taka pokann sinn eftir að upptökurnar voru birtar og þá var lagt til að tíu lögreglumönnum yrði sagt upp störfum í tengslum við málið.

Walsh var á vakt með Van Dyke þegar atvikið átti sér stað en March var falið að rannsaka það. Báðir sögðu upp þegar lagt var til að þeir yrðu reknir.

mbl.is