Kostar sama að drepa mann og hund

Michael Brown var skotinn til bana af lögreglumanni í ágúst …
Michael Brown var skotinn til bana af lögreglumanni í ágúst 2014. Ljós­mynd/​Justice For Michael Brown

Hinn 9. ágúst 2014 varð lögreglumaður Michael Brown að bana í Ferguson, Missouri. Lögreglumaðurinn, sem skaut sex til átta skotum að Brown, var sýknaður en í gær voru foreldrum unglingsins dæmdar 1,5 milljónir dala í skaðabætur í máli sem þeir höfðuðu á hendur Ferguson, lögreglustjóranum Thomas Jackson og lögreglumanninum Darren Wilson.

Um er að ræða umtalsvert lægri upphæð en aðrar fjölskyldur hafa fengið í svipuðum málum og þá vekur ekki síður athygli að miskabæturnar eru litlu hærri en fjölskylda ein í Maryland fékk greiddar í maí sl. eftir að lögreglumaður skaut og drap hundinn þeirra.

Þess má geta að Brown var svartur en fjölskylda hundsins hvít.

Rodney Price skaut hundinn Vern tveimur skotum þegar hann var að rannsaka innbrot. Í fyrstu hélt lögreglumaðurinn því fram að hundurinn hefði ráðist á sig en viðurkenndi fyrir dómi að dýrið hefði hvorki ráðist á sig né sært sig þegar hann ákvað að draga upp skotvopn sitt.

Kviðdómurinn í málinu komst að þeirri niðurstöðu að drápið hefði brotið gegn stjórnarskrárvörðum réttindum eigendanna og jafngilt stórfelldri handvömm. Fyrir vikið voru fjölskyldunni dæmdar 1,26 milljónir dala í skaðabætur.

Í kjölfar drápsins heimsótti lögreglustjóri sýslunnar fjölskylduna og hét því að atvikið yrði rannsakað. Fjölskyldu Brown var ekki sýnd slík kurteisi, heldur mátti hún þola að hinn látni sonur væri kallaður „enginn engill“ og „óþokki“ í fjölmiðlum.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Huffington Post.

mbl.is