Óttuðust umsátur og skutu jógakennara

Lögreglumaðurinn Mohamed Noor og Justine Damond.
Lögreglumaðurinn Mohamed Noor og Justine Damond.

Þremur vikum áður en ástralski jógakennarinn Justine Damond var skotin til bana af lögreglumanni í Minneapolis hafði hún bjargað hópi andarunga úr holræsi í nágrenni við heimili sitt. „Það var augnablik sem ég held að þeir hafi áttað sig á því að ég var þarna til að hjálpa og þeir hófu að stökkva í fang mitt. Ég var í skýjunum!“ sagði hin fertuga Damond um björgun unganna á sínum tíma. Síðasta laugardag heyrði Damond óhljóð í annars rólegu hverfinu sem hún býr í og hringdi á neyðarlínuna í tvígang þar sem hún hélt að verið væri að nauðga konu. Er lögreglumenn komu á staðinn fór hún á náttbuxunum að bíl þeirra. Annar þeirra, sem sat í farþegasætinu, skaut hana hins vegar til bana. Fram hefur komið að hávaði hafi heyrst, líklega frá flugeldum, og mögulegt er talið að lögreglumanninum hafi brugðið mikið, dregið þá upp byssu sína og skotið.

Justine Damond lést á staðnum.

Robert Bennett, lögmaður fjölskyldu hennar, blæs á þær kenningar að lögreglumaðurinn hafi talið að um umsátur hefði verið að ræða og því gripið til vopna. Justine hafi verið á náttfötunum og engin ógn hafi stafað af henni.

„Hún var augljóslega ekki vopnuð, það var engin ógn,“ segir hann í samtali við CBS-sjónvarpsstöðina.

Kenningin um umsátrið er runnin undan rifjum lögmanns Matthew Harrity, annars lögreglumannsins sem kom á vettvang. Það var félagi hans, Mohamed Noor, sem skaut Damond. Lögmaðurinn lét hafa eftir sér að lögreglumennirnir hefðu haft ástæðu til að halda að þeir væru skotmörk og að um umsátur hafi verið að ræða.

„Þetta er brjálæðislegt,“ segir Bennett um kenninguna. „Ekkert í gögnum málsins styður þetta.“

Harrity sagði rannsakendum árásarinnar að hann hefði heyrt hávaða rétt áður en félagi hans skaut Damond. Stofnunin sem fer með rannsókn málsins, Minnesota bureau of criminal apprehension (BCA), hefur eftir Harrity að hár hvellur hafi heyrst rétt áður en Damond birtist við lögreglubílinn. Noor hafi brugðið, tekið upp byssuna og skotið hana.

Fred Bruno, lögmaður Harritys, segir „vissulega ástæðu“ fyrir lögreglumenn að hafa áhyggjur af umsátri. Nefndi hann nýlegt dæmi þar um er lögreglukona í New York var skotin til bana í bíl sínum við svipaðar aðstæður.

Justine Damond var hugleiðslu- og jógakennari. Hún flutti til Bandaríkjanna fyrir þremur árum til að búa með unnusta sínum. Parið ætlaði að giftast á næstunni.

Krefjast svara

Forsætisráðherra Ástralíu, Malcolm Turnbull, hefur tjáð sig um málið sem hann segir fordæmalaust og óskiljanlegt. „Það er með ólíkindum að litið hafi verið á hana sem ógn,“ segir Turnbull. Hann krefst ítarlegrar rannsóknar og segir áströlsk stjórnvöld búast við því að fá skýr svör.

Noor hefur hins vegar ekki enn rætt við rannsakendur um sína hlið á málinu. Lögmaður hans hefur ekki staðfest að hann muni gera svo yfir höfuð.

Í frétt Guardian um málið er haft eftir lögfróðum mönnum að lögreglumaðurinn hafi rétt á að tjá sig ekki og líklega sé það skynsamlegt. Því er enn sem  komið er engin haldbær skýring komin fram á því hvers vegna lögreglumaður greip til vopna gegn óvopnaðri konu í rólegu úthverfi í Minneapolis.

Justine Damond var ástralskur jógakennari.
Justine Damond var ástralskur jógakennari.

Ljóst er að Justine Damond hringdi tvívegis í neyðarlínuna, 911, og tilkynnti um mögulega kynferðislega árás sem væri að eiga sér stað í húsasundi bak við heimili hennar.

Fyrra símtalið barst kl. 11.27 að kvöldi laugardagsins. Hún sagðist þá ekki viss í sinni sök, hvort að um kynferðisrárás væri að ræða. Hún hringdi svo aftur átta minútum síðar er enginn lögreglumaður var enn kominn á vettvang.

„Ég er ekki viss hvort að hún er að hafa kynmök eða hvort verið sé að nauðga henni,“ sagði Damond við neyðarlínuna en símtalið hefur verið birt, orð fyrir orð. Hún gaf svo heimilisfang sitt i Fulton-hverfinu. „Ég held að hún hafi verið að hrópa á hjálp,“ bætti hún svo við.

„Ok,“ sagði starfsmaður neyðarlínunnar. „Ég hef sent lögreglumenn á staðinn.“

Aðstoðarlögreglustjórinn í Minneapolis segi að lögreglumennirnir hafi farið um svæðið og ekki fundið neitt athugavert.

Slökkt á myndavélunum

Tvennum sögum fer af því hvað gerðist eftir að Harrity og Noor komu á vettvang. Samkvæmt rannsakendum segir hann að þeir félagar hafi verið í húsasundinu með ljósin slökkt er hávaði hafi heyrst „strax í kjölfarið á því“ að Damond birtist bílstjóramegin við við bílinn. Noor hafi því gripið til byssunnar eins og áður var lýst. Heimildarmaður KSTP-sjónvarpsstöðvarinnar segir hins vegar að lögreglumönnunum hafi orðið hverft við er þeir heyrðu bankað á glugga bílsins. Noor hafi þegar verið með byssuna sína í fanginu. Rannsakendur málsins hafa ekki staðfest þessa lýsingu.

Einhverra hluta vegna var slökkt á myndavélum sem lögreglumennirnir báru á sér lögum samkvæmt. Engar skýringar hafa enn verið gefnar á því en borgarstjóri Minneapolis hefur m.a. farið fram á að það verði rannsakað sérstaklega.

Harrity hefur starfað sem lögreglumaður í eitt ár. Noor í um tvö ár. Gagnrýnt hefur verið að tveir svo reynslulitlir lögreglumenn hafi verið paraðir saman á vakt. Aðstoðarlögreglustjórinn vísar þeirri gagnrýni á bug og segir mennina vel þjálfaða til starfa.

Lík Justine Damond verður flutt til heimalandsins, Ástralíu, að sögn fjölskyldu hennar. Þar verður hún lögð til hinstu hvílu.

mbl.is