Lögreglustjórinn sagði af sér

Íbúar í Minneapolis leggja blóm og kerti við staðinn þar …
Íbúar í Minneapolis leggja blóm og kerti við staðinn þar sem Justine Damond var skotin til bana fyrir viku. AFP

Lögreglustjóri í Minnesota-ríki hefur sagt af sér í kjölfarið á því að lögreglumaður skaut óvopnaða konu til bana.

Ástralinn Justine Damond var fertug. Á laugardagskvöldið hringdi hún í neyðarlínuna þar sem hún taldi að verið væri að nauðga konu í húsasundi á bak við heimili hennar í rólegu úthverfi Minneapolis. Lögreglumenn komu á vettvang og fór Damond út til að ræða við þá. Hún gekk upp að bílnum bílstjóramegin en þá skaut lögreglumaðurinn sem sat í farþega sætinu hana til bana. 

Janee Harteau, lögreglustjórinn sem nú hefur sagt upp störfum vegna málsins, sagði eftir að málið komst í fréttir að atvikið hefði ekki átt að gerast. Borgarstjóri Minneapolis hefur nú fallist á uppsögn hennar. Hann segist ekki lengur hafa borið traust til lögreglustjórans.

Gríðarleg reiði hefur blossað upp meðal almennings vegna málsins en Damond var á náttfötunum er hún fór út að ræða við lögreglumennina. Hún var óvopnuð og segir lögmaður fjölskyldu hennar að engin ógn hafi stafað að henni. Lögreglumaðurinn sem ók bílnum hefur sagt við rannsókn málsins að hvellur hafi heyrst á sama tíma og Damond nálgaðist bíl þeirra. Við það er talið að félaga hans hafi brugðið og hann hleypt af. 

Damond var jóga- og hugleiðslukennari. Hún flutti til Bandaríkjanna fyrir þremur árum og ætlaði að giftast bandarískum unnusta sínum bráðlega. 

Lögreglumaðurinn sem skaut heitir Mohamed Noor. Hann er reynslulítill og sömu sögu er að segja um félaga hans sem mætti á vettvang á laugardag. Noor hefur neitað að tjá sig við þá sem fara fyrir rannsókn á skotárásinni.

Lögreglumennirnir báru lögum samkvæmt myndavélar á fatnaði sínum. Ekki var kveikt á þeim á laugardagskvöldið og því engar myndbandsupptökur til af því sem gerðist. Þá náðist atvikið ekki á myndavél sem var í mælaborði lögreglubílsins. 

Lögreglustjórinn sagði á blaðamannafundi í vikunni að þetta yrði rannsakað sérstaklega því að lögreglumönnum bæri að hafa kveikt á þessum myndavélum. 

Frétt BBC um málið.

mbl.is