Grunaður um brot á hegningarlögum

Lögreglan gengur framhjá myndum af fólki sem er saknað, þar …
Lögreglan gengur framhjá myndum af fólki sem er saknað, þar á meðal Gui Minhai (til vinstri) árið 2016. AFP

Kínversk stjórnvöld segja að sænski bóksalinn Gui Minhai hafi verið hnepptur í varðhald vegna gruns um brot á hegningarlögum. 

Handtökunni hefur verið mótmælt og hafa bæði bandarísk yfirvöld og Evrópusambandið krafist þess að Gui verði látinn laus. Handtakan hefur reynt mjög á stjórnmálasamband Svíþjóðar og Kína.

Gui Minhai ásamt dóttur sinni Angelu Gui fyrir mörgum árum …
Gui Minhai ásamt dóttur sinni Angelu Gui fyrir mörgum árum síðan. AFP

„Vegna brota á kínverskum lögum hafa kínversk yfirvöld gripið til aðgerða tengdra hegningarlögum gagnvart Gui Minhai,“ sagði talsmaður utanríkisráðuneytisins, Geng Shuang.

Hann bætti við að Kínverjar og Svíar hefðu átt góð samskipti vegna málsins og vísaði á bug gagnrýni Svía vegna handtökunnar og sagði hana „ábyrgðarlausa“.

„Svíar ættu að vita að málið er alvarlegt og sumir Svíar hafa hegðað sér á ábyrgðarlausan hátt vegna þess.“

Gui var hand­tek­inn í lest á leið til Pek­ing  en hann var þar á ferðalagi ásamt tveim­ur sænsk­um stjórn­ar­er­ind­rek­um. Þetta er í annað skiptið sem hann er hand­tek­inn af kín­versk­um yf­ir­völd­um.

Gui, sem er einn af fimm bók­söl­um í Hong Kong sem eru þekkt­ir fyr­ir safa­rík­ar bæk­ur um líf stjórn­málaelít­unn­ar í Kína, hvarf fyrst árið 2015 en kom aft­ur upp á yf­ir­borðið í varðhaldi á meg­in­landi Kína.

mbl.is