Skutu svartan öryggisvörð til bana

AFP

Vopnaður öryggisvörður á bar í úthverfi Chicago var skotinn til bana af lögreglu eftir að hafa yfirbugað árásarmann á barnum aðfaranótt sunnudags.

Til skotbardaga kom á milli árásarmannsins og öryggisvarðarins, Jemel Roberson, 26 ára, um nóttina og lyktaði honum með því að Roberson náði að yfirbuga árásarmanninn. Þegar lögregla kom á vettvang hélt hann árásarmanninum niðri með því að krjúpa á baki hans. Aðeins augnabliki eftir að lögregla kom á vettvang hafði lögreglumaður skotið á Roberson, sem var svartur, og drepið hann. BBC greinir frá þessu.

Í viðtali við bandaríska fjölmiðla segja vinir Roberson að hann hafi dreymt um að ganga til liðs við lögregluna en hann var einnig tónlistarmaður. „Fólkið sem hann vildi að yrði fjölskylda hans tók líf hans,“ sagði Patricia Hill, prestur við Purposed Hill-kirkjuna í Chicago, í viðtali við WGN-TV.

Roberson starfaði sem gospel-söngvari hjá nokkrum kirkjum í borginni auk þess að starfa sem öryggisvörður á barnum Manny's Blue Room.

Sophia Ansari, talskona lögreglustjórans í Cook-sýslu, segir að lögreglan hafi verið kölluð á vettvang eftir átök á barnum þar sem fjórar manneskjur voru skotnar. Engin þeirra, þar á meðal árásarmaðurinn, er með lífshættulega áverka. Unnið er að rannsókn á því hvað varð til þess að lögreglan skaut öryggisvörðinn til bana.

Að sögn vitna var Roberson skotinn þrátt fyrir að fólk hafi reynt að stöðva lögregluna. Æpti fólk á lögreglu að hann væri öryggisvörður en þar sem lögreglan hafi séð svartan mann vopnaðan byssu hafi hún einfaldlega skotið hann til bana. 

mbl.is