Svarar gagnrýni vegna ferðar til Búrma

Jack Dorsey, einn af stofnendum Twitter.
Jack Dorsey, einn af stofnendum Twitter. AFP

Jack Dorsey, forstjóri og einn af stofnendum Twitter, hefur varið röð tísta sem hann skrifaði um ferðalag sitt til Búrma (Mijanmar) þar sem hann stundaði hugleiðslu.

Dorsey var harðlega gagnrýndur á Twitter fyrir að hafa í færslum sínum hvergi minnst á þær ofsóknir sem rohingjar hafa sætt í landinu. Þess í stað sagði hrósaði hann landinu fyrir matreiðsluna, fallegt landslagið og fyrir fólkið sem þar býr en hann dvaldi í 10 daga á hugleiðslusetri skammt frá borginni Mandalay.

Gagnrýnendur Dorsey sökuðu hann um að vera úr takti við tilveruna enda hafi Sameinuðu þjóðirnar rætt um að rannsaka skuli hvort hershöfðingjar Búrma hafi framið þjóðarmorð.

„Ég geri mér grein fyrir þeim mannréttindabrotum og þeim þjáningum sem hafa átt sér stað í Búrma. Ég lít ekki á það að heimsækja, starfa með eða tala við fólk sem stuðning við slíkt,“ sagði hann. „Ég ætlaði mér ekki að gera lítið úr þessum málum með því að nefna þau ekki en hefði mátt viðurkenna ég veit ekki nógu mikið um þau og þarf að læra meira.“

Dorsey segist hafa stundað hugleiðslu lengi og hann hafði lengi langað að heimsækja Búrma og stunda vipassana-hugleiðslu eins og hún er iðkuð með „upprunalegum hætti“.mbl.is