Hæfður 25 sinnum af lögreglu

Willie McCoy/Willie Bo.
Willie McCoy/Willie Bo. Instagramsíða McCoy/skjáskot

Ungur bandarískur rappari sem lögregla skaut til bana í Kaliforníu fyrr í mánuðinum var með 25 byssukúlur í líkamanum, að sögn lögmanns fjölskyldunnar, Melissa Nold.

Að sögn Nold voru það sex lögreglumenn sem skutu Willie McCoy, sem gekk undir listamannsnafninu Willie Bo. Þeir hæfðu hann í andlit, háls, brjóst, hægra eyra, í hendur og axlir í bænum Vallejo 6. febrúar.

„Þetta var tortíming,“ segir Nold. Hún segir að það sé ekkert sem réttlæti meðferð lögreglunnar og engin skynsamleg skýring á því hvers vegna hann var skotinn til bana. „Þetta er eins og þeir hafi verið að æfa sig að skjóta í mark.“ 

Nold segir að McCoy, sem var tvítugur að aldri, hafi verið við upptökur á heimili fjölskyldunnar en ákveðið að fara á Taco Bell-veitingastað seint um kvöld. Að sögn lögreglu höfðu starfsmenn þar samband og tilkynntu að Mercedes-Benz bifreið væri lagt þar sem hægt er að panta mat beint úr bílnum (drive-thru line). Bíllinn væri í gangi og maður með hangandi höfuð á stýri bifreiðarinnar. 

Lögreglumennirnir segja að þeir hafi séð byssu í bílnum og þegar þeir nálguðust hafi McCoy vaknað og teygt sig í byssuna. Hann hafi hundsað fyrirskipun lögreglunnar um að lyfta höndunum upp.

Í yfirlýsingu frá lögreglunni í Vallejo kemur fram að lögreglumennirnir sex hafi óttast um eigið öryggi og því skotið manninn.

Yfirvöld segja að byssan sem var í bílnum hafi verið fullhlaðin og tilkynnt hafi verið um að henni hafi verið stolið í Oregon.

Nold, sem áður var lögreglumaður, segir viðbrögð lögreglunnar í þessu tilviki eins og í skotárás. Lögreglan hafi getað falið sig á bak við lögreglubílana og notað sírenu og gjallarhorn til þess að vekja McCoy í stað þess að skjóta hann 25 sinnum.

„Ef hann átti að vera vopnaður hvers vegna stóðu þeir fyrir framan hann?“ spyr hún en lögreglan í Vallejo segist ekki tjá sig frekar um málið.

Drápið á McCoy er eitt fjölmargra tilvika þar sem lögreglan í Bandaríkjunum hefur skotið fólk til bana á hrottalegan hátt, segir í frétt AFP. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Vallejo-lögreglan kemst í fréttirnar fyrir ofbeldi. Árið 2017 var birt myndskeið af lögreglumanni þar berja mann til óbóta og svipað tilvik var fangað á myndskeið í fyrra. 

mbl.is