Tekinn af lífi í Hvíta-Rússlandi

Hvítrússneskir hermenn marsera um götur borgarinnar Pinsk í maímánuði, við …
Hvítrússneskir hermenn marsera um götur borgarinnar Pinsk í maímánuði, við hátíðarhöld. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti. AFP

Fangi í Hvíta-Rússlandi, eina ríki Evrópu þar sem dauðarefsingar tíðkast enn, hefur verið tekinn af lífi, samkvæmt því sem hvítrússneski mannréttindahópurinn Viasna miðlar til fjölmiðla frá ættingjum mannsins.

Samkvæmt tillkynningu Viasna hefur fanginn Alexander Zhilnikov verið tekinn af lífi, en hann var dæmdur fyrir tvöfalt leigumorð árið 2015 og eitt morð til viðbótar. Annar maður sem var dæmdur í sama máli og Zhilnikov hefur mögulega líka verið tekinn af lífi, en venjan í Hvíta-Rússlandi er sú að taka fanga sem dæmdir eru saman af lífi á sama tíma.

Viasna gat þó ekki staðfest að það hefði verið svo nú, samkvæmt AFP-fréttastofunni.

Aftökuaðferðin skot í hnakkann

Í frétt AFP kemur fram að mikil leynd ríki yfir aftökum Hvít-Rússa, en fregnir hermi að ríkið taki dauðadæma fanga af lífi með því að skjóta þá í hnakkann.

Engin opinber tölfræði er gefin út um það hve marga fanga Hvít-Rússar taka af lífi á ári hverju, en vitað er að í fyrra voru þeir að minnsta kosti þrír.

Dauðarefsingin er enn við lýði í nágrannaríkinu Rússlandi, en Rússar hafa þó ekki beitt henni síðan árið 1996.

mbl.is