Lögðu lífið að veði og töpuðu

Óscar Alberto Martínez Ramírez drukknaði ásamt dóttur sinni Valeria á …
Óscar Alberto Martínez Ramírez drukknaði ásamt dóttur sinni Valeria á flóttanum. Hún var 23 mánaða gömul. AFP

Myndir af rúmlega tvítugum flóttamanni ásamt tæplega tveggja ára gamalli dóttur sinni sem drukknuðu þegar þau reyndu að komast yfir fljótið Rio Grande á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna hafa vakið athygli á aðstæðum flóttafólks sem er að reyna að komast til fyrirheitna landsins.

Á myndunum, sem teknar voru í gær, sjást feðginin liggja með höfuðin ofan í gruggugu vatni við árbakka Rio Grande. Myndirnar tók blaðakonan Julia LeDuc en hún kom að Rio Grande aðeins nokkrum klukkustundum eftir að Óscar Alberto Ramirez drukknaði ásamt 23 mánaða gamalli dóttur sinni Valeria.

AFP

Líkt og bent er á í frétt New York Times, þetta er fólkið sem oft vill gleymast í umræðunni um landamæravörslu og hvort taka eigi á móti flóttafólki. Þeir sem eru á flótta og aðstæður þeirra. 

Ramirez, sem var 25 ára gamall, flúði frá El Salvador ásamt eiginkonu sinni, sem er 21 árs að aldri, og dóttur. Þau ákváðu að taka áhættuna síðdegis á sunnudag og freista þess að komast yfir fljótið, segir í skýrslum mexíkóskra yfirvalda sem blaðamenn AFP-fréttastofunnar hafa lesið. 

Ramirez bar litlu stúlkuna á bakinu og kom henni fyrir undir bol sínum til að tryggja öryggi hennar áður en þau fóru yfir ána. En þungur straumur árinnar greip þau og drukknuðu fyrir framan móður og eiginkonu sem komst upp á land. Lík þeirra fundust í gær í Matamoros sem er í Tamaulipas-ríki í Mexíkó.

AFP

Eftir að myndir af þeim fóru í dreifingu hefur verið hart sótt að yfirvöldum í Mexíkó og hvernig ríkið hefur tekið á málefnum flóttafólks. 

Forseti Mexíkó, vinstrimaðurinn Andres Manuel Lopez Obrador, hét því í kosningabaráttunni í fyrra að vernda hag flóttafólks. Hann hefur verið harðlega gagnrýndur að undanförnu, ekki síst eftir að ljósmyndir AFP-fréttastofunnar birtust sem sýna þungvopnaða þjóðvarðliða beita tvær konur og stúlku hörku þegar þeir handtaka þær við Rio Grande í síðustu viku.

Í gær sagði forseti Mexíkó að 15 þúsund hermenn sem ríkisstjórnin hefur flutt að landamærunum hefðu ekki það hlutverk að stöðva flóttafólkið frá því að reyna að komast yfir landamærin. Harðræðið sem náðist á mynd yrði rannsakað. 

AFP

Alþjóðleg lög vernda rétt flóttafólks  sem reyna að komast yfir landamæri til þess að sækja um alþjóðlega vernd og hingað til hafa yfirvöld í Mexíkó ekki reynt að stöðva það, segir í frétt BBC. 

En Lopez Obrador er undir miklum þrýstingi frá forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, vegna þessa og er ríkisstjórn Mexíkó mikið í mun að sýna árangur og koma í veg fyrir að tollar verði lagðir á útflutning til Bandaríkjanna líkt og bandarísk yfirvöld hótuðu að gera í síðasta mánuði.

Staða flótta­fólks sem ekki fell­ur und­ir skil­grein­ingu á flótta­manna­hug­taki Sam­einuðu þjóðanna (refu­gee), það er ekki á flótta und­an stríði eða stjórn­mála­skoðana held­ur ör­brigð eða of­beldi sem ekki fell­ur und­ir flótta­manna­skil­grein­ingu (economic migrant) sé oft enn verri. Því efna­hags­leg­ir flótta­menn fá mjög sjald­an skjól og eru því lík­leg­ast­ir til þess að lenda í skugga­kerfi ríkja sem þeir töldu jafn­vel fyr­ir­heitna landið, segir Pia Oberoi sem er sér­fræðing­ur hjá Mann­rétt­inda­stofn­un Sam­einuðu þjóðanna þegar kem­ur að mann­rétt­ind­um inn­flytj­enda og flótta­fólks. Hún er með doktors­próf í lög­fræði frá Oxford-há­skóla og var meðal ræðumanna á friðarráðstefnu Alþjóðamála­stofn­un­ar og Höfða í fyrra.

Líkt og fjallað var um á mbl.is í gær eru aðstæður barna á landamærunum mjög slæmar og var sérstaklega talað um landamærastöðina í Clint í Texas í gær eftir að hópur lögfræðinga fékk að heimsækja stöðina. Vanræksla og ill meðferð á börnum var ofarlega í huga lögmannanna eftir heimsóknina og fluttu yfirvöld fjölmörg börn af stöðinni í kjölfarið. Á mánudag var talað um að þau væru ekki lengur nokkur hundruð þar heldur 30 talsins. Síðan þá hafa yfir 100 börn verið flutt aftur á landamærastöðina. Sólarhring eftir að 250 börn voru flutt þaðan vegna þrengsla. 

AFP

Á sama tíma berast fréttir af afsögn yfirmanns landamæraeftirlitsins. Í gær var staðfest að yfirmaður tolla- og landamæraeftirlitsins, Customs and Border Protection (CBP), John Sanders, myndi láta af störfum 5. júlí. Hann tilkynnti starfsfólki um afsögn sína í tölvupósti í gær. 

Bandarískir fjölmiðlar greina frá því að Trump ætli að setja Mark Morgan í hans stað en Morgun er nú yfirmaður innflytjenda og tollamála, Immigration and Customs Enforcement (ICE). Í viðtali við CBS í gærkvöldi sagðist Morgan ekki trúa því að það væri kerfisvandi ríkjandi á landamærastöðvunum. Aðstæður séu ólíkar og ekkert vandamál að bæta þar úr. 

AFP

BBC og New York Times greina frá því að 100 börn hafi verið flutt að nýju í yfirfulla landamærastöðina í Clint í gær eftir að hafa verið þar vikum saman áður. Lögmaður sem heisótti stöðina sagði í samtali við BBC að börnin hafi verið læst inni í skelfilegum klefum þar sem þau höfðu aðeins aðgang að klósetti sem stóð í miðju rýminu án nokkurrar aðgreiningar. Þar var þeim einnig gert að sofa og borða - inni í klefunum. „Það var enginn sem annaðist þessi börn,“ segir Warren Binford prófessor í lögum við  Williamette University í Oregon.

Yfirfullir klefar, lýs út um allt og inflúensufaraldur. Börnin eru lokuð inni án eftirlits frá fullorðnum. Börn sem eru alvarlega veik og liggja á dýnum á gólfinu, segir Binford í viðtali við BBC.

AFP

Elora Mukherjee, sem er annar lögfræðingur sem heimsótti stöðina segir í samtali við CBS News að börnin hafi verið í sömu fötunum vikum saman. „Þetta er niðurlægjandi og ómannlegt og svona á ekki að gerast í Bandaríkjunum,“ segir Elora í viðtali við CBS.

Frétt CBS

Flóttamaður er samkvæmt skilningi flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) frá 1951 og viðauka hans frá 1967 skilgreindur sem; sá sem er utan við heimaland sitt og af ástæðuríkum ótta við að verða ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar í sérstökum félagsmálaflokkum, eða stjórnmálaskoðana, og getur ekki eða vill ekki, vegna slíks ótta, færa sér í nyt vernd þess lands. Flóttamaður getur einnig verið sá sem er ríkisfangslaus, og er utan þess lands, þar sem hann hafði reglulegt aðsetur, vegna ofsókna og getur ekki eða vill ekki, vegna ótta við slíka atburði, hverfa aftur þangað.

Þegar einstaklingur sækir um hæli utan eigin ríkis er hann í fyrstu skilgreindur sem hælisleitandi af stjórnvöldum viðkomandi ríkis. Með umsókn sinni um hæli er viðkomandi einstaklingur að biðja um viðurkenningu á stöðu sinni sem flóttamaður. Ef stjórnvöld fallast á réttmæti slíkrar umsóknar þá fær einstaklingurinn viðurkenningu á stöðu sinni sem flóttamaður samkvæmt flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna, að því er fram kemur í skilgreiningu Mannréttindaskrifstofu Íslands.

mbl.is