Dauðarefsingar „siðlausar og gallaðar“

William Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna.
William Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna. AFP

Ákvörðun bandarískra alríkisyfirvalda um að framkvæma dauðarefsingar á ný eftir 16 ára hlé hefur vakið hörð viðbrögð aðgerðasinna og demókrata. William Barr dómsmálaráðherra hef­ur gert fang­els­is­mála­stofn­un Banda­ríkj­anna að und­ir­búa af­tök­ur fimm fanga.

Nokkur þeirra sem hyggjast bjóða sig fram fyrir hönd Demókrataflokksins í forsetakosningunum vestanhafs á næsta ári vilja að dauðarefsingar verði afnumdar.

Fram kom í yfirlýsingu frá Barr dómsmálaráðherra að mennirnir fimm sem eigi að taka af lífi hafi verið dæmdir fyrir morð eða nauðgan­ir á börn­um og eldri borg­ur­um. Aftökurnar eru fyrirhugaðar í desember og janúar næstkomandi.

Stærstu mannúðarsam­tök Banda­ríkj­anna ACLU segja að skoða þurfi hvert mál fyrir sig. Með því að setja aftökur á dagskrá með stuttu millibili sé verið að flýta sér um of.

Öld­unga­deild­arþingmaður­inn Kamala Harris sagði að dauðarefsing væri „siðlaus og gölluð“. Bernie Sanders lýsti því yfir að hann myndi afnema dauðarefsingu ef hann yrði forseti.

Pete Buttigieg, eitt forsetaefna demókrata, sagði að kynþáttur fanga hefði mikil áhrif á það hverjir hlytu dauðarefsingu.

Fang­arn­ir fimm sem dóms­málaráðuneytið vill láta taka af lífi nú eru Daniel Lee Lew­is, sem myrti þriggja manna fjöl­skyldu, Lezmond Mitchell, sem myrti 63 ára konu og níu ára barna­barn henn­ar, Wesley Ira Pur­key, sem nauðgaði og myrti 16 ára stúlku og 80 ára konu, Al­fred Bour­geo­is, sem áreitti og myrti tveggja ára dótt­ur sína og Dust­in Lee Hon­ken, sem myrti fimm manns þar á meðal tvö börn.

mbl.is