Texasbúi tekinn af lífi

Larry Swearingen.
Larry Swearingen. AFP

Texasbúi sem var dæmdur til dauða fyrir að hafa nauðgað og kyrkt 19 ára háskólanema var tekinn af lífi með banvænni sprautu í nótt. Aftökunni hafði verið verið frestað fimm sinnum en nú var það niðurstaða hæstaréttar að ekki væri ástæða til að fresta henni. Aftakan er sú fjórða í Texas það sem af er ári. 

Fangelsismálayfirvöld í Texas hafa staðfest að Larry Swearingen, sem var 48 ára gamall, hafi látist klukkan 18:47 að staðartíma í fangelsinu í Huntsville. Samkvæmt fréttum bandarískra fjölmiðla hélt hann fram sakleysi sínu alla tíð og segja lögmenn hans að lífsýni sem fundust undir nöglum fórnarlambsins hafi ekki verið úr skjólstæðingi þeirra. 

Swearingen var dæmdur til dauða árið 2000 fyrir að hafa myrt Melissu Trotter sem sást síðast á lífi 8. desember 1998. Að sögn saksóknara hafði Swearingen reynt að fá Trotter til þess að hafa við hann kynmök en hún neitað. Vitni báru að hafa séð hana yfirgefa háskólasvæðið með honum.

Eiginkona Swearingen fann bæði kveikjara og sígarettur frá Trotter í hjólhýsi þeirra hjóna en hvorki hún né eiginmaður hennar reyktu. Eins fann lögreglan sokkabuxur í ruslinu og á þær vantaði hlutann sem Trotter var kyrkt með. Veiðimenn fundu lík Trotter í skóglendi nokkrum vikum síðar. 

mbl.is