Funda í Stokkhólmi um kjarnavopn

Bílar með samninganefndir Bandaríkjanna og Norður-Kóreu innanborðs aka að ráðstefnumiðstöðinni …
Bílar með samninganefndir Bandaríkjanna og Norður-Kóreu innanborðs aka að ráðstefnumiðstöðinni Villa Elfvik Strand í Stokkhólmi. AFP

Sendinefndir Bandaríkjanna og Norður-Kóreu komu saman í Stokkhólmi í dag til viðræðna um kjarnorkuvopn eftir nokkurt hlé á slíkum viðræðum. Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segist vongóður um að viðræðurnar beri árangur. Síðast ræddu ríkin tvö um kjarnavopn á fundi sem Donald Trump, forseti Bandaríkjanna og  Kim Jong Un forseti Norður-Kóreu áttu í Hanoi í Víetnam í febrúar síðastliðnum.

Nokkur leynd hvílir yfir fundinum sem haldinn er í ráðstefnumiðstöð á eyjunni Lidingö, skammt undan Stokkhólmi, í nágrenni sendiráðs Norður-Kóreu þar í borg.

Meðal þeirra sem sitja fundinn eru Kim Myong Gil, helsti samningamaður norður-kóreskra stjórnvalda á alþjóðavettvangi og Stephen Biegun sem er sérstakur erindreki Donalds Trumps Bandaríkjaforseta.

Talið er að það hafi flýtt fyrir þessum fundi að stjórnvöld í Norður-Kóreu staðfestu fyrr í þessari viku að her landsins hefði skotið á loft nýrri gerð eld­flauga sem geta borið kjarnavopn og að hægt sé að skjóta þess­ari gerð frá kaf­bát.

Áþekkir fundir voru haldnir í Stokkhólmi í mars í fyrra og svo aftur í janúar á þessu ári. 

mbl.is