Evrópuþingið hafnar fulltrúa Macron

Evrópuþingið í Brussel.
Evrópuþingið í Brussel. mbl.is/Alexander

Svo kann að fara að ný framkvæmdastjórn Evrópusambandsins taki við í desember, mánuði seinna en ráðgert er. Þetta segir David Sassoli, forseti Evrópuþingsins. Kjörtímabil núverandi framkvæmdastjórnar rennur út 1. nóvember og hefur Evrópuþingið þegar samþykkt að Þjóðverjinn Ursula von der Leyen taki við forsæti framkvæmdastjórnarinnar við þau tímamót.

Hvert aðildarríki tilnefnir síðan einn fulltrúa i framkvæmdastjórnina, en Evrópuþingið þarf að staðfesta hverja tilnefningu. Evrópuþingið hefur nú hafnað þremur tilnefningum: tilnefningum Rúmena, Ungverja og Frakka.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti hafði tilnefnt Sylvie Goulard, samflokkskonu sína, en hún er undir rannsókn Eftirlitsstofnunar Evrópusambandsins (OLAF) vegna gruns um að hafa nýtt sér aðstoðarmenn sína, til verkefna ótengdu Evrópusambandinu, er hún sat sjálf á Evrópuþinginu.

mbl.is