Kýr fá sýndarveruleikagleraugu gegn kvíða

Þegar gleraugun eru komin á hausinn á kúnum hafa þær …
Þegar gleraugun eru komin á hausinn á kúnum hafa þær friðsælan haga að sumarlagi fyrir augunum. Ljósmynd/Landbúnaðar- og matvælaráðuneyti Rússlands

Rússneskt kúabú er byrjað að setja sýndarveruleikagleraugu á mjólkurkýr sínar, í því skyni að vinna gegn kvíða hjá kúnum. Búið er að sérútbúa gleraugu til þess að smeygja á kýrhausana og þegar þau eru komin á kýrnar hafa þær friðsælan haga að sumarlagi fyrir augunum.

BBC fjallar um þetta undarlega mál. Í fréttinni segir að landbúnaðarráðuneyti Rússlands standi fyrir tilrauninni og vísi til rannsókna um að kýrnar mjólki meira ef þær séu í betra skapi og minna kvíðnar.

Eintóm gleði, ekkert stress.
Eintóm gleði, ekkert stress. Ljósmynd/Landbúnaðar- og matvælaráðuneyti Rússlands

Samkvæmt Rússunum sýna tilraunirnar fram á árangur og að heilt yfir hafi andlegt ástand hjarðarinnar batnað, en tilraunirnar hafa átt sér stað á RusMoloko-býlinu skammt fyrir utan Moskvu.

„Dæmi frá kúabúum í mismunandi löndum sýna að í rólegu andrúmslofti eykst magn mjólkur og stundum gæði hennar markvert,“ segir í yfirlýsingu ráðuneytisins.

Fylgst verður með kúnum í langtímarannsókn, sem ráðuneytið vonast til að verði útbreiddari ef verkefnið haldi áfram að skila jákvæðum niðurstöðum.

Frétt BBC um málið

mbl.is