Brenndu fórnarlamb sitt lifandi

Mótmælt var í Nýju-Delí í dag vegna málsins.
Mótmælt var í Nýju-Delí í dag vegna málsins. AFP

Fjórir karlmenn hafa viðurkennt að hafa hópnauðgað og myrt 27 ára gamla konu í indversku borginni Hyderabad. 

Konan var dýralæknir og atvikið átti sér stað þann 27. nóvember samkvæmt BBC, þegar konan var á leið sinni heim eftir læknisskoðun. Mennirnir hafa verið handteknir og hafa viðurkennt sök sína.

Mennirnir brutu á konunni kynferðislega og fluttu hana síðan með flutningabíl á afskekkt svæði þar sem þeir kveiktu í henni. Brenndar líkamsleifar konunnar fundust morguninn eftir í útjaðri Hyderabad. 

Mennirnir fjórir koma fyrir héraðsdómara í dag. 

Kynbundið ofbeldi hefur verið í brennidepli í Indversku samfélagi undanfarin ár. Samkvæmt opinberum tölum voru 33,658 tilfelli nauðgana tilkynnt til lögreglu árið 2017, það er að jafnaði 92 nauðganir á dag.

mbl.is