Sat í búri við dómsuppkvaðningu

Omar al-Bashir situr í búri sakborgnings á réttarhöldunum sem fóru …
Omar al-Bashir situr í búri sakborgnings á réttarhöldunum sem fóru fram í dag. AFP

Omar al-Bashir, fyrrverandi forseti Súdans, var í dag dæmdur í tveggja ára gæsluvarðhald. Bashir var dæmdur fyrir spillingu á grundvelli milljóna dollara sem hann fékk frá Sádi-Arabíu en hann mun ekki fara í fangelsi heldur sitja inni í betrunarmiðstöð. 

Það er vegna aldurs Bashirs, sem er 75 ára gamall. Súdönsk lög koma í veg fyrir að fólki sem er orðið eldra en 70 ára sé kastað í steininn. 

Fleiri kærur beinast að Bashir en þær tengjast valdaráninu árið 1989 sem færði honum völd yfir Súdan, þjóðarmorðum og morðum á mótmælendum sem hann er sagður hafa fyrirskipað fyrr á þessu ári, áður en honum var steypt af stóli í apríl síðastliðnum.

Gert að greiða rúman milljarð

Bashir kom fyrir dóminn í búri íklæddur hefðbundnum hvítum jalabiya-kufli með túrban um höfuð sér. Meðan á réttarhöldunum stóð kölluðu stuðningsmenn Bashirs að réttarhöldin væru pólitísk. Þeim var skipað að yfirgefa dómsalinn en héldu mótmælunum áfram fyrir utan dómshúsið. 

Stuðningsmenn Bashirs halda á mynd af fyrrum leiðtoga sínum. Þeir …
Stuðningsmenn Bashirs halda á mynd af fyrrum leiðtoga sínum. Þeir mótmæltu dómnum ásamt fleiri stuðningsmönnum Bashirs. AFP

Bashir hefði mest getað fengið tíu ára fangelsisdóm. Auk tveggja ára dómsins var honum gert að greiða 6,9 milljónir evra, 351.770 dali og 5,7 milljónir súdanskra punda, en fjárhæðirnar fundust allar á heimili hans. Samsvara þær samanlagt rúmum milljarði íslenskra króna. 

Að sögn lögmanna Bashirs verður dómnum áfrýjað.

mbl.is