„Ég hefði frekar viljað dvelja áfram í Moria“

Skíðaskálinn þar sem flóttafólkið býr.
Skíðaskálinn þar sem flóttafólkið býr. AFP

„Ég hefði frekar viljað dvelja áfram í Moria,“ segir Sylva Caumba, hælisleitandi frá Austur-Kongó, þar sem hann situr í anddyri skíðaskála í Vasilitsa og horfir á snjóinn fyrir utan.

Caumba er þrítugur að aldri og var ásamt eiginkonu og tveimur börnum fluttur fyrir tveimur mánuðum frá eyjunni Lesbos í skíðaskálann sem er fjarri annarri mannabyggð. 

Moria-flóttamannabúðirnar eru yfirfullar og ástandið þar er ekki mönnum bjóðandi að mati Flóttamannamiðstöðvar Sameinuðu þjóðanna, UNHCR. Talið er að sex sinnum fleiri en rúmast í búðunum séu þar núna og hafa grísk yfirvöld reynt að bregðast við með því að flytja flóttafólkið til meginlandsins.

Fátt er hægt að hafa fyrir stafni annað en að …
Fátt er hægt að hafa fyrir stafni annað en að horfa á sjónvarpið. AFP

„Þar vorum við að minnsta kosti tengd við umheiminn. Hér líður okkur eins og í opnu fangelsi,“ segir Caumba. 

Vasilitsa er í þúsund metra hæð og næsti bær, Grevena, er í 45 km fjarlægð. Líklegra er að mæta björnum og úlfum á þessum slóðum en mannfólki.

Húsnæðið hefur mátt muna fífil sinn fegurri og þegar efnahagskreppan reið yfir Grikkland átti að loka því endanlega. Nú búa þar 116 hælisleitendur frá Afganistan, Austur-Kongó, Sómalíu og Sýrlandi.

AFP

„Við vöknum, við horfum á sjónvarp og við förum að sofa. Svona á lífið ekki að vera,“ segir tvítugur fyrrverandi knattspyrnumaður, Mabika Zordel, sem er einnig frá Austur-Kongó. 

Nuredin Intze, 38 ára frá Sómalíu, segir að það hafi verið betra að vera í yfirfullum búðum á grísku eyjunni Leros í Eyjahafi. Hér líði tíminn svo hægt þar sem fólk hefur ekkert að gera. „Eina sem er eftir er vonin um að eitthvað muni breytast,“ segir Intze. 

Í sumar og haust fjölgaði hælisleitendum mjög á grísku eyjunum Lesbos, Chios, Samos, Kos og Leros þegar margir komu þaðan frá Tyrklandi. Varð það til þess að flóttamannabúðir, sem voru yfirfullar fyrir, á eyjunum gátu ekki lengur tekið við fleirum. Talið er að yfir 40 þúsund flóttmenn séu núna á eyjunum og yfir 37 þúsund þeirra séu í flóttamannabúðum sem geta hýst sex þúsund manns.

Flóttamannabúðir á eyjunni Chios.
Flóttamannabúðir á eyjunni Chios. AFP

Forsætisráðherra Grikklands, Kyriakos Mitsotakis, kynnti nýverið aðgerðir sem miða að því að flytja 20 þúsund flóttamenn til meginlandsins fyrir lok árs. En vegna andstöðu og mótmæla í ýmsum bæjum á meginlandi þar sem hýsa átti flóttafólkið hefur gengið illa að standa við stóru orðin. 

Í október sagðist hóteleigandi í bænum Vrasna, sem er skammt frá Þessalónikíu, hafa fengið hótanir um að kveikt yrði í hótelinu eftir að hún samþykkti að taka á móti hópi hælisleitenda.

AFP

Svipaðar sögur hafa heyrst víðar og hefur ríkisstjórnin því neyðst til þess að leita leiða sem þóttu óhugsandi áður. Til að mynda var hópur flóttafólks sendur í yfirgefið klaustur grísku rétttrúnaðarkirkjunnar á Peloponnese-skaga. Eftir stutta dvöl þar höfðu flest þeirra óskað eftir flutningi þaðan. Sama hvert. 

AFP

Zorbel sem dvelur í Vasilitsa-skíðaskálanum óskaði eftir því að fá að æfa með knattspyrnuliðinu í næsta bæ en var neitað. „Ég veit það ekki en kannski er skýringuna að finna í húðlit mínum,“ segir hann.

Tvisvar í viku fer lögreglan með fólkið til Grevena að sækja vistir og utan þess hafa Zordel og vinur hans, Daniel Elipio, sem er 17 ára, lítið að gera. Þeir eru báðir frá Austur-Kongó en flúðu þegar ættingjar þeirra voru myrtir. 

AFP

Viðbrögð við komu flóttafólks á smærri staði í Grikklandi hafa verið misjöfn og yfirleitt verst hjá gömlu fólki. „Þau halda bara áfram að eignast börn,“ segir einn eigandi veitingastaðar. „Við eignumst færri börn og ef þetta heldur svona áfram munu þeir taka yfir.“

Bæjarstjórinn í Grevena, Yiorgos Dastamanis, segir að koma flóttafólks og hælisleitenda muni fæla ferðafólk frá því að koma til bæjarins en viðurkennir að nánast engir ferðmenn komi þangað á þessum tíma árs. Á sama tíma veltir Caumba því fyrir sér hvernig hann geti ásamt fjölskyldu sinni eignast líf í grísku fjöllunum. „Ég vil læra grísku, fá vinnu og öðlast eðlilegt líf hér með fjölskyldu minni. Eitt barna minna er tíu ára gamalt og er ekki í skóla. Ég er ekki með neinar fáránlegar kröfur.“ 

mbl.is