Geta ekki tekið við mikið fleirum

Tugþúsundir íbúa Idlib-héraðs í Sýrlandi hafa flúið heimili sín í átt að landamærum Tyrklands vegna stöðugra loftárása á héraðið. Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, varar við því að Tyrkir geti hreinlega ekki tekið við fleiri flóttamönnum frá Sýrlandi en nú þegar eru 3,7 milljónir sýrlenskra flóttamanna í Tyrklandi. Ekkert land í heiminum hefur tekið á móti jafn mörgum flóttamönnum og Tyrkir. 

Erdogan varar leiðtoga ríkja í Evrópu við því að áhrifa af straumi flóttafólks nú muni gæta í ríkjum þeirra. 

Alls búa um þrjár milljónir í Idlib-héraði en það er síðasta stóra landsvæðið sem enn er undir yfirráðum andstæðinga ríkisstjórnar Bashar al-Assad forseta Sýrlands. Það styttist í að níu ár séu liðin frá því borgarastyrjöldin í landinu hófst. Á þeim tíma hafa tæplega 400 þúsund íbúar verið drepnir og milljónir flúið land.

Við athöfn í Istanbul í gærkvöldi sagði Erdogan að yfir 80 þúsund íbúar Idlib-héraðs hafi flúið að landamærum Tyrklands undan loftárásum sýrlenska stjórnarhersins og Rússa. 

„Ef ofbeldið gagnvart íbúum Idlib linnir ekki þá mun talan hækka enn frekar. Ef það verður geta Tyrkir ekki tekið einir á móti svo mörgu fólki á flótta,“ sagði Erdogan. Ljóst sé að áhrifa muni gæta í Evrópu, einkum Grikklandi. Hann biður ríki Evrópu um að taka á sig hluta ábyrgðarinnar. 

Tyrkir gerðu innrás í norðurhluta Sýrlands í október og eru á milli tvö og þrjú hundruð þúsund Sýrlendingar á vergangi í eigin landi vegna hernaðar Tyrkja þar. Eins drápu tyrkneskar hersveitir hundruð hermanna Kúrda og almenna borgara. 

Frétt Foreign Policy

Á sama tíma berast fréttir af því að sýrlenski herinn er að ná undir sig fjölda þorpa og bæja í héraðinu og margir almennir borgarar hafa látist. Rússneskar herþotur sveima yfir héraðinu og gera nánast látlausar loftárásir. Meðal annars létust níu í gær þar sem þeir voru að reyna að flýja undan sprengjuregninu.

Engu virðist skipta ákall Sameinuðu þjóðanna um að hlé verði gert á árásunum og viðvörunum um þann mikla fjölda fólks sem væntanlega leggur af stað á flótta. „Við erum hvergi örugg. Ef við erum inni í húsum okkar eða flýjum út. Það skiptir engu máli hvort við gerum. Við deyjum,“ segir Abu Akram í samtali við AFP-fréttastofuna.

mbl.is