Tekist á um réttarhöldin yfir Trump

Chuck Schumer, leiðtogi Demókrata í öldungadeildinni, krefst þess að kjöl …
Chuck Schumer, leiðtogi Demókrata í öldungadeildinni, krefst þess að kjöl verði aðgengileg og vitniburður verði leyfður í réttarhöldunum yfir Trump. AFP

Leiðtogar repúblikana og demókrata í öldungadeild Bandaríkjaþings takast nú á um hvaða reglur eiga að gilda um réttarhöldin yfir Donald Trump Bandaríkjaforseta. Demókratar fara fram á að skjöl verði aðgengileg og vitniburður verði leyfður svo hægt sé að tryggja sanngjörn réttarhöld, að því er segir í umfjöllun BBC.

Leiðtogi Demókrata í öldungadeildinni, Chuck Schumer, segir nýlega birtingu afhjúpandi tölvupósts um aðstoð við úkraínsk stjórnvöld minna á hvers vegna gagnsæi er nauðsynlegt. Vísar hann til tölvupósts sem birtur var um helgina sem bendir til þess að Trump hafi leitað leiða til þess að stöðva fjárstyrk og vopnasendingar til Úkraínu 91 mínútu eftir símtal forsetans við Volodymyr Zelensky, forseta Úkraínu.

Umrætt símtal er meginatriði í ákærunni gegn Trump.

Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni, kveðst ekki hafa útilokað vitnaleiðslur, en hefur ekki verið viljugur til þess að samþykkja nú þegar að vitnisburðir verða leyfðir sem hluti af réttarhöldunum yfir Trump.

Mitch McConnell, leiðtogi Repúblíkana í öldungadeildinni.
Mitch McConnell, leiðtogi Repúblíkana í öldungadeildinni. AFP

Hann segir að réttast væri að haldið verði á málinu með svipuðum hætti og þegar réttað var yfir Bill Clinton, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, árið 1999. Þá ákváðu öldungadeildarþingmenn hverjir myndu bera vitni eftir þingfestingu málsins.

Trump var formlega ákærður af fulltrúadeild þingsins í síðustu viku fyrir að hafa misbeitt valdi sínu með því að reyna að fá yfirvöld í Úkraínu til þess að rannsaka mál Hunter Biden, son Joe Biden frambjóðenda, og þar með hafa áhrif á kosningar í Bandaríkjunum auk þess að hindra fulltrúadeildina í að afla upplýsingar um málið.

mbl.is