Drepin í skjóli skóla

Við skólann í Sarmeen í dag.
Við skólann í Sarmeen í dag. AFP

Átta létust í árás stjórnarhersins á skóla í sýrlenska bænum Sarmeen í dag, á fyrsta degi ársins. Fjögur þeirra eru börn en skólanum hafði verið breytt í neyðarskýli fyrir þá sem höfðu þurft að flýja heimili sín. Um miðjan mars verða liðin 9 ár frá því stríðið í Sýrlandi hófst. Stríð sem hefur neytt milljónir til að yfirgefa heimili sín og kostað um hálfa milljón mannslífa.

Undanfarnar vikur hefur stjórnarherinn, með stuðningi Rússa, hert mjög árásir á Idlib-hérað en það er síðasta stóra vígi stjórnarandstöðunnar. Í desember hröktust 284 þúsund íbúar héraðsins af heimilum sínum vegna stöðugra árása á bæi og borgir héraðsins en alls búa um þrjár milljónir í Idlib.

AFP

Sextán særðust í árásinni og einhverjir þeirra eru í lífshættu. Fréttaritari AFP-fréttastofunnar á vettvangi segir að hann hafi séð leifar af logandi eldflaug á ólífulundi skammt frá skólanum. 

Vegna þess hversu margir eru á vergangi hefur opinberum byggingum, moskum, bílskúrum, hjónavígslusölum og skólum verið breytt í neyðarskýli, samkvæmt upplýsingum frá OCHA, sam­ræm­ing­ar­skrif­stofu Sam­einuðu þjóðanna um mannúðar­mál.

AFP

Rússar, bandamenn forseta Sýrlands, lýstu yfir vopnahléi í Idlib undir lok ágúst eftir nokkurra mánaða bardaga sem kostuðu um eitt þúsund almenna borgara lífið. En lítið hefur farið fyrir því að undanförnu að vopnahléið sé virt. 

mbl.is