Yfirgefinn í kirkju með skilaboð frá eigandanum

Hundurinn Cracker.
Hundurinn Cracker. Skjáskot/RSPCA

Yfirgefinn hundur fannst í kirkju í Blackpool á Englandi með bréfmiða frá eiganda sínum sem á stóð „ég elska þig og mér þykir þetta svo, svo, svo leitt“. 

Hundinum hefur nú verið gefið nafnið Cracker, en það var starfsfólk kirkjunnar sem fann hann við altari kirkjunnar að morgni 18. desember, en kirkja hins heilaga hjarta í Blackpool er opin allan sólarhringinn. 

Á miðanum sem eigandi Cracker skildi eftir í kirkjunni stóð: „Líf mitt er ekki að fara í rétta átt og ég gat ekki hugsað mér að hann yrði með mér á götunni kaldur og svangur.“ Þá bað eigandinn hvern þann sem fyndi hundinn að „vinsamlegast trúa mér þegar ég segi að þetta var ekki auðveld ákvörðun. Hundurinn minn er allt fyrir mér en ég veit ekki hvað annað ég get gert.“

Þá kom einnig fram á miðanum að Cracker væri „stilltur, vinalegur, elskulegur hundur“ sem verður 7 ára í mars á þessu ári. 

Hið konunglega breska dýraverndunarfélag (RSPCA) segir samkvæmt BBC að Cracker líði vel og fái nóg af hundamat. 

Will Lamping, starfsmaður RSPCA, segir að ráða megi af miðanum sem var skilinn eftir með Cracker að eiganda hans þætti afar vænt um hann. 

„Því miður verður fólk fyrir ýmsum áföllum í lífinu og aðstæður geta breyst en það er sárt að vita til þess að einhver þarna úti sakni Cracker og veltir fyrir sér hvernig honum líði,“ sagði Lamping. 

mbl.is