Átta börn drukknuðu

Frá Vial flóttamannabúðunum á grísku eyjunni Chios.
Frá Vial flóttamannabúðunum á grísku eyjunni Chios. AFP

Átta börn eru meðal þeirra ellefu flóttamanna sem drukknuðu þegar bátur þeirra sökk við vesturströnd Tyrklands í gærkvöldi. Átta var bjargað úr Eyjahafi skammt frá Cesme, ferðamannastað gegnt grísku eyjunni Chios. Þjóðerni þeirra er óþekkt, að því er segir í frétt BBC.

Tyrkneska strandgæslan segist hafa brugðist við neyðarópum fólksins og komið átta til bjargar. Samkvæmt frétt BBC er Cesme aðeins 15 km frá Chios þar sem þúsundir hælisleitenda búa við ömurlegar aðstæður. Flestir þeirra sem flýja yfir Eyjahafið eru frá Afganistan, Pakistan og Sýrlandi. Í fyrra stöðvuðu Tyrkir um 60 þúsund manns á flóttanum og tæplega níu þúsund smyglarar voru handteknir. 

mbl.is