Lögmaður fræga fólksins ver Trump

Alan Dershowitz.
Alan Dershowitz. AFP

Lögmaðurinn Alan Dershowitz, sem þekktastur er fyrir að verja ýmsa fræga einstaklinga í gegnum tíðina, verður í lögfræðingateymi Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna,vegna ákæru neðri deildar Bandaríkjaþings á hendur honum fyrir embættisbrot.

Meðal annarra skjólstæðinga Dershowitz í gegnum tíðina sem nefndir eru í frétt AFP má nefna auðmanninn og kynferðisglæpamanninn Jeffrey Epstein, leikarann O. J. Simpson, leikstjórann Roman Polanski og hnefaleikamanninn Mike Tyson.

Bandarískir fjölmiðlar hafa enn fremur greint frá því að Kenneth Starr verði einnig í teymi forsetans en hann er þekktastur fyrir að hafa verið saksóknari í ákæru Bandaríkjaþings á hendur Bill Clinton Bandaríkjaforseta árið 1998.

Þá fer Pat Cipollone, lögfræðilegur ráðgjafi Hvíta hússins, fyrir lögfræðingateyminu en einnig verður Jay Sekulow, lögmaður Trumps, í teyminu.

Kenneth Starr.
Kenneth Starr. AFP
mbl.is