Fleiri ríki verða sett á bannlistann

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, á viðskiptaráðstefnunni World Economic Forum í …
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, á viðskiptaráðstefnunni World Economic Forum í Davos í Sviss. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti greindi frá því í dag að ríkisstjórn hans hefði í hyggju að bæta tveimur ríkjum á lista yfir ríki þar sem ríkisborgurum þeirra er annaðhvort meinað að koma til Bandaríkjanna eða þeir sæta verulegum takmörkunum í þeim efnum.

„Við ætlum að bæta tveimur ríkjum á listann. Við verðum að gæta öryggis okkar. Landið okkar verður að vera öruggt,“ sagði Trump á viðskiptaráðstefnunni World Economic Forum í Davos í Sviss. Tilkynnt yrði um nöfn ríkjanna „mjög fljótlega“.

Rifjað er upp í frétt AFP að bandaríska viðskiptablaðið Wall Street Journal hefði áður greint frá því að til stæði að bæta sjö ríkjum á listann og þar á meðal Nígeríu, fjölmennasta ríki Afríku, sem og fleiri ríkjum í Afríku og Asíu. Ríki til skoðunar væru Hvíta-Rússland, Erítrea, Kirgistan, Búrma, Súdan og Tansanía.

Listinn var kynntur til sögunnar fljótlega eftir að Trump tók við forsetaembættinu í byrjun árs 2017 og hefur verið mjög umdeildur. Þau ríki sem þegar eru fyrir á listanum eru Íran, Líbía, Sómalía, Sýrland, Jemen og Norður-Kórea. Tsjad var einnig um tíma á listanum.

mbl.is