Reif ræðu forsetans

Varaforseti Bandaríkjanna, Mike Pence, fylgist með þegar forseti Bandaríkjanna, Donald …
Varaforseti Bandaríkjanna, Mike Pence, fylgist með þegar forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hunsar hönd forseta fulltrúadeildarinnar, Nancy Pelosi. AFP

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, segir Bandaríkin sterkari en nokkru sinni fyrr og minntist ekki orði á ákæruna á hendur honum í stefnuræðu sinni á Bandaríkjaþingi í gær. Þegar hann var að ljúka máli sínu reif forseti fulltrúardeildarinnar, Nancy Pelosi, útprent af ræðu forsetans fyrir aftan hann.

Í dag má vænta þess að Trump verði laus undan ákærunni þar sem ekki er meirihluti á bak við hana í öldungadeildinni ólíkt því sem var í fulltrúadeildinni þar sem demókratar eru í meirihluta.  

Ávarpi Trums var sjónvarpað beint og mátti heyra repúblikana söngla: „Fjögur ár til viðbótar,“ áður en hann hóf mál sitt. Trump var ákaft fagnað af flokksfélögum þegar hann gekk inn í salinn. Þegar Trump kom að ræðustólnum rétti hann Pelosi eintak af ræðunni. Hún brosti og rétti fram höndina til þess að taka í hönd forsetans en hann hunsaði hana. Í lok flutnings ræðunnar reif Pelosi sitt eintak af ræðu forsetans og fór ekki á milli mála að það var með vilja gert. 

AFP

En þetta er ekkert nýtt í samskiptum þeirra tveggja. Trump hefur ítrekað sakað Pelosi um blekkingar, sagt hana taugahrúgu og jafnvel bilaða í færslum sínum á Twitter. 

Ræða Trumps tók 18 mínútur í flutningi og ekki orð um ákæruna, en hann er ákærður fyrir misbeitingu valds. Þetta er í þriðja skiptið sem full­trúa­deild­in samþykk­ir ákæru á hend­ur for­seta Banda­ríkj­anna. Þeir for­ver­ar Trump sem ákærðir voru í full­trú­ar­deild­inni eru Andrew John­son árið 1868 og Bill Cl­int­on 1998. Hvor­ug ákær­an var hins veg­ar samþykkt í öld­unga­deild­inni.

Trump var tíðrætt um eigið ágæti og ótrúlegan árangur í starfi. Ekki síst á sviði efnahagsmála. „Störfum hefur fjölgað, tekjur aukist og fátækt minnkað. Glæpum hefur fækkað og væntingar aukist,“ sagði hann meðal annars. 

AFP

Demókratar í þingsal sátu flestir hljóðir á meðan Trump flutti ræðuna og voru margar kvennanna á þingi hvítklæddar sem tákn um stuðning við kosningarétt kvenna. En þegar Trump talaði um samfélag allra, sama af hvaða litarhætti, trúarbrögðum og trú fór kliður um salinn. Við svo búið gengu nokkrir demókratar út úr salnum.

Þeir demókratar sem eftir sátu virtust undrandi og í hálfgerðu áfalli þegar forsetinn sakaði þá um linkind í garð hættulegra glæpamanna og að þeir væru að reyna að koma á sósíalisma í heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna.mbl.is

Bloggað um fréttina